Fyrir skemmstu skrifaði ég hér um skort minn á hæfileikum í að til að geta föndrað í höndunum.
Ég gefst þó ekki svo auðveldlega upp enda full af sjálfseyðingarhvöt og þörf til að potast sífellt í hlutum sem ég ætti ekkert að vera vesenast með. Svo nú hef ég snúið aftur, tilbúin í föndrið og meðvituð um að allt sem gæti farið illa, mun að öllum líkindum klúðrast hjá mér.
Flest föndurverkefni henta mér frekar illa því þau eru tja… föndur en um daginn rakst ég á sniðuga hugmynd sem mig langaði að prófa. Eina reglan sem ég set mér í föndri er:
Mun þetta föndur geta haft það í för með sér að ég kveiki í hárinu á mér? Ef svarið er já, þá á ég ekki að gera það. Og viti menn – það er kerti í þessu föndri. Gerið slökkviliðiðinu viðvart!
Nú hef ég mikið dálæti á varalitum. Þetta verkefni snýst um að búa til varalit úr vaxlitum sem þýðir að maður fær að blanda sinn eiginn lit. Það hefur alltaf verið draumur hjá mér og því tók ég alla sénsa og keyrði í föndrið. Útkoman var ótrúlegt en satt ofsalega fín og ég sit hér með nýja, sérhannað varalitinn minn og algjörlega óbrennt hár. Áfram ég!
Skemmtileg dægrastytting og frábær leið til að prófa nýja varaliti án þess að þurfa að fara út að eyða formúgu í liti sem þú ert óvön að nota.
Hér eru leiðbeiningar hvernig gera skuli vaxlitavaraliti. Myndirnar eru ekki frá því þegar ég föndraði minn enda er óþarfi að leggja mig í enn meiri hættu við föndrið með því að taka ljósmyndir í þokkabót. Ég leyfi alvöru föndurmeisturum að sjá um það.
EFNIVIÐUR
Þetta þarftu til að gera vaxlita varalit.
- Prik eða áhald til að hræra með
- Skeið úr málm
- Vaseline
- 1/2 tsk. af olíu (má vera hvaða olía sem er; ólívu, kókos, möndlu..etc.)
- Kerti
- Lítið ílát
- Vaxliti að þínu vali
AÐFERÐ
1) Veljið litina í varalitinn. Brjótið af vaxlitunum og notið þá liti sem ykkur langar í varalit úr. Ég notaði svipaða vaxliti og á myndinni en hafði örlítið meiri rauðan með. Munið að í heildina þarftu hálfan vaxlit til að gera heilan varalit, svo ef þú ætlar að blanda saman mörgum litum skaltu hafa vaxlitabrotin lítil.
2) Hitaðu saman klípu af vasilíni, 1/2 tsk af olíu og vaxliti saman í skeiðinni yfir kertinu uns allt hefur bráðnað vel saman. Hrærið vel á meðan og farið varlega.
3) Þegar vaxlitablandan hefur bráðnað saman í eitt skaltu hella því í lítið, þurrt ílát. Til dæmis gamla varalitahólka, tóma varasalvaöskju eða linsubox.
Láttu varalitamixtúruna standa og harðna í um klukkustund og þá er það komið. Voilá! Þú ert varalitahönnuður og föndurmeistari.
Góða skemmtun með nýja varalitinn þinn!
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.