Með rjúkandi kaffibolla og hugljúfa tóna, ímynda ég mér að ég sitji heima og njóti þess að gera eitthvað í höndunum; mála rangeygða engla á kerti, hekla ungbarnaslefmottur, skrautskrifa jólakortin svo mikið að þau eru illskiljanleg…
…mála á vegginn einhverja magnaða tilvitnun í Marilyn Monroe sem er síðan með augljósri stafsetningarvillu….svona dúllerí.
Þetta langar mig allt að gera. En geri ég eitthvað af þessu? Nei, og það á sér eina skýringu: Ég er handfötluð.
Raunir handfatlaðra einstaklinga
Handfötlun er hvorki sjúkdómur né kvilli, heldur fæðingargalli. Við fyrstu sýn lít ég út eins og nokkuð eðlilegur einstaklingur en þegar ég kemst nálægt einhverju sem tengist föndri og handavinnu verða algjörar náttúruhamfarir. Þar sem að ég er í ævilöngu verkefni við að sættast við sjálfa mig hef ég brugðið á það ráð að finna fleiri einstaklinga, sem líkt og ég, þrá að verða Handavinnuhetjan-en uppskera sjaldan erfiðið.
Pinterestfail er heimasíða þar sem handfatlaðir hvaðanæva úr heiminum geta sent inn myndir af algjörlega misheppnuðum dúllerís tilraunun. Þær eru vægast sagt misheppnaðar og sprenghlægilegar.
1.
Hér hafði kona ein ákveðið að sjóða saman marga litla hálfkláraða vaxliti og búa til úr þeim nýja vaxliti sem líta út eins og skeljar og fiskar. Öll fjölskyldan getur skemmt sér yfir þessari iðju. Útkoman bauð hins vegar ekki beint upp á fjölskyldukvöld:
2.
Regnbogakökur hafa slegið í gegn undanfarið og varla er hægt að mæta í saumaklúbb án þess að sjá þessar dýrindiskökur. Gerð var heiðarleg tilraun til að baka sniðuga útgáfu af kökunni. Að bakstri loknum leit allt út fyrir að þessai regnbogakaka þyrfti að fara á þunglyndislyf.
3.
Þrátt fyrir að vera handfötluð eru ýmsir hlutir sem mér hefur tekist að framkvæma á sæmilegan hátt. Þar á meðal eru hárgreiðslur. Ég hef gert sæmilegan hnút, tagl og jafnvel splæst í fasta fléttu sem myndi hæfa ofsafengnum spinning-tíma. Þar sem að ég er meðlimur í Félagi Handfatlaðra þá finn ég mikið til með þeim sem ætla sér stóra hluti, vopnaða metnaði og hárspreyi eins og t.d. þessi unga stúlka sem vildi gera Lady GaGa slaufu-hárgreiðslu en endaði með fuglahreiður.
4.
Þegar líður að jólum fara margir að huga að föndri og má segja að það sé sá tími ársins sem hvað flestir sitja heima hjá sér með límbyssu í hárinu og gremju í hjarta yfir því að jólakransinn lítur út eins og guacamole veisla. Hér fyrir neðan hafði einhver hug að því að skapa Snæfinn Snjókall og þannig gleðja yngstu börnin. Að öllum líkindum eru þessi börn nú í svefnrannsóknum sökum tíðra snjókarlamartraða. Ógleymanleg jólaminning.
Þið sem búið yfir öðrum hæfileikum en að föndra í höndunum, örvæntið ekki. Það er ekki allra að sauma út andlitsmynd af Justin Bieber á koddaver, enda óþarfi að allir séu að gera það sama.
Ég hvet ykkur til að finna ykkur önnur áhugamál þar sem eiginleikar ykkar fá að blómstra, eða í það minnsta hafa húmor fyrir útkomunni.
Hér má finna síðuna Pinterestfail
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.