Ég er mikið að pæla í glúten og sykri þessa dagana og skaðlegum áhrifum þess á sál og líkama. Góður kunningi minn hefur til dæmis tekið sig í gegn og grennst um 10 kíló með því að sleppa m.a. hveiti, mjólkurvörum, geri, sykri og áfengi.
Hann fór af stað í þessa hreinsun til að vita hvort hann gæti unnið sigur á rósaroða og exemi sem hann hafði glímt við lengi, aukakílóin sem fuku voru voru víst aðeins aukaglaðningur. Hann náði nefnilega takmarki sínu, losaði sig við húðkvillana og skartar nú nýrri og fegurri ásjónu – algerlega heilbrigðri. Húðin hans er laus við roðann og það stórmerkilega er að exembletturinn hvarf líka. Kunninginn þakkar þessu sínum nýja lífsstíl.
Sagt er að við séum það sem við borðum og það er mikið rétt. Kunningi minn tók mataræði sitt í gegn frá grunni og naut við það stuðnings Kolbrúnar graslæknis í Jurtaapótekinu á Laugavegi. Þess má geta að hún sagði kunningjanun einnig um að hann væri ekki með exem heldur svepp í húðinni! Honum brá illilega í brún við þau tíðindi. Í raun má samt óska honum til hamingju með að hafa fengið svepp og það í sjálft andlitið því annars hefði hann aldrei tekið sig á og breytt lífsstíl sínum.
Mér skylst að allir séu með svepp í sér en hjá viðkvæmu fólki geti þeir orðið að áberandi húðlýti. Komist líkaminn í tæri við glúten og sykur magnast sveppurinn upp, sérstaklega undir álagi – en sé fæðið sykur- og glútenlaust heldur sveppur sig á mottunni.
Kunninginn henti við svo búið mjög mörgu út úr ísskápnum, innihald hans var að mestu byggt á geri, sykri og hveiti – merkilegt nokk. Í staðinn byrgði kunningi sig upp af vörum sem voru lausar við öll slík efni og hollari kostur fyrir hann.
Það er ótrúlega lúmskt hvað leynist mikill sykur og glúten í öllum vinsælum fæðutegundum og það kom kunningja mjög á óvart. Þannig er til dæmis ger í kaffi og svörtu te! Það er ger í rauðvíni og sykur í svo til öllum tilbúnum mjólkurdrykkjum. Eina mjólkin sem er í lagi er beint af kúnni – annað þolir líkami kunningja míns ekki. Og hann getur bara gleymt því að hakka í sig eina með öllu á Bæjarins bestu. Hann getur líka gleymt því að fá sér ís með dýfu á heitum sólardögum og svo mætti lengi áfram telja.
Maðurinn telur þetta sykursnauða mataræði þó alls ekkert eftir sér.
Hann fagnar sínum nýja lífsstíl þar sem hollt og gott er vegsamað, velur þúsundfalt að drekka vatn af krana og borða íslenskan fisk og kjötmeti frekar en pizzur, kók og ís. Já og svo finnst honum lítill söknuður eftir áfenginu.
Ástæðan er einföld, hann er sem nýr maður.
Með réttu mataræði hefur hann losað sig við húðkvillana, aukakílóin og endurheimt orku sem hann grunaði aldrei að hann byggi yfir.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.