Eins og dyggir lesendur okkar vita erum við Pjattrófur algjörir aðdáendur Bláa Lónsins og teljum að Íslenskar konur ættu allar að gera mikið meira af því að fara í lónið.
Um síðustu helgi gerðum við okkur, í tilefni af nýju ári, dagsferð í lónið ásamt vinkonum okkar.
Við byrjuðum daginn snemma, vorum komnar í lónið um ellefu og fórum beint í Betri Stofuna sem er sérstakt svæði ætlað stórum eða smáum hópum sem koma í lónið. Algjör lúxus. Þarna vorum við níu saman og fórum flestar tvær og tvær í rúmgóða og flotta klefa þar sem handklæði, krem, sloppar og inniskór biðu okkar.
Svo trítluðum við á sloppunum niður í stofuna en það er dásamlegt rými með lítilli innilaug, ávöxtum, vatni, kaffi, þægilegum sætum og hlýjum arni þar sem hægt er að spjalla saman áður en farið er í lónið.
Ofan í lóninu fengum við okkur engiferskot til að vakna almenninlega og bárum svo á okkur lava-skrúbbinn og þörungamaskann sem hægt er að fá á barnum en þetta eru nýjungar sem við getum sko mælt með. Húðin á þér verður eins og vel bónaður barnsrass að slíkri meðferð lokinni. Mjúk og hrein. Kostar í kringum 800 kr og við mælum allar með þessu!
Endurnærðar og ferskar fórum við svo í Sushi að baðinu loknu. Hvað er betra en þetta? Veitingastaðurinn LAVA var að fá einn besta sushi kokk landsins til liðs við sig, Viktor Örn Andrésson (landsliðskokk) og okkur fannst spennandi að prófa veitingarnar hans.
Þetta var ekkert smá gordjöss. Raðirnar af girnilegu sushi með sætu og góðu hvítvíni, tjattað út í eitt og allar ótrúlega ferskar. Klukkan orðin tvö og því nægur tími eftir af laugardeginum. Svo enduðum við á góðu kaffi og bílferð í bæinn.
Ef þú og þinn saumaklúbbur vitið ekki hvað þið eigið að gera næst þá hvetjum við Pjattrófur ykkur til að prófa þessa dásemd. Bara að bóka með smá fyrirvara og láta sig svo hlakka til.
Lífið er ljúft!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.