Við Pjattrófur gerðum okkur dagamun í gær og kíktum á Natura Reykjavík eða gamla Hótel Loftleiðir. Þar nærðum við sál og líkama á veitingastaðnum SATT og í heilsulindinni Sóley Natura Spa.
Við hittumst klukkan tólf og snæddum gómsætan dögurð (e. brunch) matreiddann í opnu eldhúsi af listakokkum í nýuppgerðu umhverfi þar sem íslensk húsgögn og náttúra fá að njóta sín.
Á SATT er lögð mikil áhersla á góð hráefni með heilsuívafi og fengum við ofsalega góða ferska safa, ljúffenga tómatsúpu og fjölbreytt salöt. Á hlaðborðinu mátti þó einnig finna hið hefðbundna egg og beikon sem er ómissandi við dögurðinn.
Að sjálfsögðu var einnig dýrindis bakkelsi í boði sem við nutum með kaffinu eftir matinn.
VIN Í BORGINNI
Að dögurði loknum fórum við niður í Sóley Natura Spa. Það er friðsældar vin í miðju borgarinnar þar sem hægt er að ná djúpri slökun í einstaklega fallegu umhverfi. Við fórum í pottinn og fengum svo allsherjar olíu og epsomsalt líkamsskrúbb að hætti Sóleyjar sem skildi húðina eftir stinna og mjúka.
Sóley Natura Spa býður upp á alla almenna snyrtiþjónustu; andlitsböð, litanir, vaxmeðferðir, jurtatattoo, handsnyrtingu og fótaaðgerðir en svo eru líka allskonar góð nudd í boði.
Við mælum með þessu ljúfa dekri fyrir vinkonuhópa eða pör. Á meðan við áttum ljúfa stund í Natura Spa kom fullt af kátum vinkonum á öllum aldri á staðinn sem höfðu það ó svo gott. Spurning um að skipta þessu út fyrir næsta saumaklúbb?
Aðgangur í Sóley Natura Spa kostar 2.900 kr en dögurður kostar 3.100 kr og þá er innifalið allskonar góðgæti. Aðgangur að Natura Spa með skrúbbi kostar svo 4.900 kr.
MYNDIR!

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.