Með hækkandi sól og vori í lofti er lag að taka fataskápin í dekur, svipað því og þegar vorverkin eru unnin í garðinum – og sjá að skápurinn og heildarútlit okkar mun taka stakkaskiptum!
Sömuleiðis sköpum við okkur gott karma með því að losa um það gamla, auka svigrúm fyrir það fallega sem við notum ennþá og etv. rýma fyrir einhverju nýju í tilefni sumarsins.
Allt hefur sinn líftíma og það á sömuleiðis við um fötin. Í skápnum finnast margar flíkur sem við einhverra hluta vegna notum sjaldan eða aldrei sem og flíkur sem eru úr sér gengnar eða slitnar. Það er mjög einfalt að taka þessar tuskur til hliðar – spyrja sig hvort hægt sé að gefa þær einhverri vinkonu eða til góðgerðarstofnunnar.
Hægt að koma í verð eða breyta
Það má líka koma þessu í verð í Kolaportinu á góðum laugardegi eða skoða fötin vandlega og athuga hvort má breyta þeim þannig að við viljum nota þau. Til dæmis mætti stytta kjól sem er of síður, þrengja buxur ef við höfum grennst og lita svartar flíkur sem hafa upplitast í þvotti aftur svartar. Það má lagfæra ótrúlegustu hluti með lagni en þá er gott að þekkja góðan klæðskera sem getur unnið þessi litlu kraftaverk fyrir okkur.
Ef ekkert af þessu virkar og flíkin er enn sem þyrnir í augum okkar er um að gera að kveðja hana. Eins er mjög sniðugt að fjarlægja vetrarfötin og geyma í efri skápum en setja þess í stað sumarfötin í öndvegi, því þannig skapast betri yfirsýn á léttu fötin sem við ætlum að nota í sumar.
Less is more
Einhvers staðar heyrðist sagt; “less is more” og á það sannarlega við um gullkistuna. Þegar tekið er til í skápnum finnum við örugglega flíkur sem við höfðum löngu gleymt. Sömuleiðis má betur greina hvernig hægt er að raða saman fáum flíkum á marga ólíka vegu þegar minna magn er í skápnum. Það besta við svona alsherjar tiltekt er hins vegar að hún smitar út frá sér á fleiri sviðum lífsins heldur en í skápnum einum saman.
Um leið og við kveðjum það gamla, erum við tilbúnar að taka á móti nýjum tækifærum sem virðast allt í einu streyma til okkar eins og fyrir einskæra heppni!
Gangi þér vel!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.