ÆVINTÝRI Á ÍSLANDI: Í köldum og dimmum janúar er oft lítið um tilbreytingu og gjarnan er mánuðinum bölvað fyrir að vera leiðinlegur og langdreginn. Það þarf þó ekki að leita langt yfir skammt til að fara í rómantíska helgarferð án þess að fljúga til útlanda og fara á hausinn. Um síðustu helgi skellti ég mér ásamt unnustanum eina nótt á sveitahótelið Hótel Rangá sem liggur einmitt við ána Rangá á milli Hellu og Hvolsvallar. Það tók ekki nema rúma klukkustund að keyra í fallegu sólríku vetrarveðri með kaffistoppi á Selfossi á áfangastað.
Hótel Rangá hefur lengi verið fast í sessi sem glæsilegt sveitahótel þar sem matur, vín og huggulegheit eru í fyrirrúmi. Það verður að segjast að slíkir lúxusreitir utan borgarmarkanna eru nokkuð fágætir en hótelið ber alla þessa kosti í senn: að vera vinalegt og kósý en að sama skapi fágað og alþjóðlegt. Húsið er byggt í klassískum „lodge“ stíl – bjálkahús sem minnir á bandarísk sveitabýli eða jafnvel skíðakofa í ölpunum. Innandyra er svipuð stemning, allt viðarklætt í hólf og gólf á meðan etnísk teppi og „rustic“ hlutir eins og uppstoppuð dýr, þung viðarhúsgögn, fallegir lampar og bækur veita hlýleika.
Flest herbergin eru það sem kallast „ Superior“ og eru rúmgóð með sjónvarpi, minibar og aðgengi út á svalir og heita potta (hvílík dásemd!). Þau eru öll með hornbaðkari sem er auðvitað fullkomið fyrir tvo og skemmtilegt krydd í rómantíkina. Það var alveg dásamlegt að tipla út í frostið á sundfötunum og út í heitan pott á meðan dreypt var á rauðvíni undir stjörnubjörtum himni. Við fengum svo að skoða svíturnar á Hótel Rangá sem kallast „ The World Pavilion“ og eru allar nefndar eftir sitt hvorri heimsálfunni.
Þessi stórfenglegu herbergi heita öll eftir sitt hvorri heimsálfunni og voru innréttaðir af mikilli natni af fyrrum hótelstjóra og meðeiganda hótelsins, hinum sænska Björn Eirikson. Björn er mikill ferðalangur og notaði innsýn sína og reynslu til að framkalla ákveðin hughrif mismunandi heimsálfa í hverri svítu. Þarna má til dæmis gista í heimi Inkanna í Suður-Ameríku svítunni þar sem allar hurðir og veggir eru sérsmíðaðar með indjánamynstrum, teppi á veggjum og gólfum og undraverðar mósaíkflísar á baðherberginu. Norður Ameríkusvítan er svo allt öðruvísi og minnir á veiðikofa í Kanada með uppstoppuðum dýrum, fágæt veiðihnífasett á veggjunum og inúitahöfuðskraut fyrir ofan rúmið. Baðkarið er sérstaklega skemmtilegt- stórt frístandandi koparbað sem minnir á gömlu kúrekamyndirnar.
Af öðrum svítum má nefna þá japönsku, sem er naumhyggjulega innréttuð með bambusmottum á gólfum og lágsteyptu viðarrúmi og svo Antarktiku, sem mér fannst persónulega alveg ævintýraleg svíta og gæti vel ímyndað mér að eyða nóttu þar! Svítan minnir á settið úr Kubrick mynd og er dekkuð út í svörtu og hvítu. Þar er til dæmis að finna hvítt sporöskjulaga baði á miðju stofugólfinu, styttum af mörgæsum í einu horninu, glerskákborð þar sem teflt er með ísbjörnum og rostungum og svart dýraskinn yfir rúminu. Svíturnar eru gífurlega vinsælar hjá ferðamönnum til landsins og hjá íslendingum sem eru að halda upp á sérstakt tilefni eins og til dæmis brúðkaup eða brúðkaupsafmæli.
Það sem kom okkur mest á óvart á Hótel Rangá fyrir utan innsýn í aðra heimshluta var hversu stórkostlegur maturinn var. Ég bjóst við góðum mat á veitingastaðnum en ekki fimm stjörnu „gourmet“ upplifun sem vart er að finna í hjarta miðborgarinnar. Við völdum okkur „Norðurljósamatseðilinn“ í því skyni að fá að smakka það besta í boði hússins og prófa eitthvað nýtt og má með sanni segja að þeir þrír tímar sem við eyddum að snæðingi hafi verið hrein dásemd. Í forrétt fengum við „foie gras“ með bláberjasultu, trufflum og „horseradish“ sósu sem bráðnaði í munni og grafinn silung með lime sósu, aðalrétturinn var geggjuð nauta „ribeye“ steik með sætum kartöflum og öðru góðgæti og í eftirrétt fengum við súkkulaðiköku framreidda í mokkabolla með vanilluís og ávöxtum. Allt var þetta framreitt af einskærri fágun og fegurð. Vínlisti hótelsins er líka verulega athyglisverður en þar er að finna frábært og mikið úrval af kampavínum, eðalvínum og gömlum viskítegundum sem ættu að ganga verulega í augun á vínáhugamönnum.
Þegar farið var í háttinn gefst gestum (þá aðallega erlendum ferðamönnum) kostur á að skrá sig á lista þar sem fólk er vakið um miðja nótt ef svo bæri til að norðurljósin færu að skína. Á þessu landsvæði er auðvitað kjörin skilyrði til að sjá norðurljósin vegna lítillar ljósmengunnar og hótelið stílar mikið inn á norðurljósadýrðina fyrir ferðamenn. Okkur þótti samt dálítið spaugilegt þegar erlendir gestir spurðu starfsfólkið ítrekað klukkan hvað nákvæmlega norðurljósin byrjuðu.
Ferðin okkar var svo kórónuð morguninn eftir með æðislegum morgunmat sem er innifalinn í herbergisverðinu en þar er að finna hlaðborð af ýmiskonar ávöxtum, morgunkornum, brauði, áleggi, vöfflum og enskum morgunmat ( þeas. egg, beikon, pylsur, baunir og „hash browns“). Við brunuðum aftur í bæinn algjörlega endurnærð og leið eins og við hefðum verið í viku í hvíldarferð í útlöndum.
Þess má geta að Hótel Rangá býður upp á mörg frábær tilboð nú um vetrarmánuðina: á bóndadaginn, valentínusarhelgina og svo sérstaka gourmet daga í febrúar. Ég mæli eindregið með því að pör eða vinir skelli sér á þetta dásamlega hótel í dekur og gourmet tilbreytingu sem á eftir að lifa með þér vikum saman.
Tilboð og verð er að finna á www.hotelranga.is
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.