Síðustu helgi var frumsýning á Walking Mad í Borgarleikhúsinu en það er ÍSLENSKI DANSFLOKKURINN sem flytur verkið á þessu fertugasta starfsári flokksins!
Það er Johan Inger, fyrrverandi leikrænn stjórnandi Cullberg Balletflokksins og meðlimur í Konunglega balletflokknum í Svíþjóð og Netherlands Dance Theatre, sem hefur skapað glæsilegt verk fyrir níu dansara.
Dansverkið er sett fram við tónverkið Bolero eftir Maurice Ravel og endurspeglar þá trú Sókratesar að “Okkar mestu blessanir komi til okkar eftir vegi geðveikinnar”.
Það var sem sagt árið 1973 sem atvinnudansflokkur var fyrst stofnaður hér á landi og hlaut hann nafnið Íslenski dansflokkurinn. Eitt af hlutverkum flokksins er að opinbera möguleika og fjölbreytileika dansformsins og að gera fólki kleyft að njóta gæða dansins. Íslenski dansflokkurinn hefur svo sannarlega staðið undir þessu hlutverki og sett svip á menningarlíf í áranna rás. Því ber að fagna að flokkurinn sé ekki aðeins enn við lýði heldur í fullum blóma.
Afmælissýning Íslenska dansflokksins hefur til að bera tvö stutt dansverk en það eru s.s. Hið íslenska “Ótta” og svo “Walking Mad”. Ótta er samið af Ásgeir Helga Magnússyni, Hjördísi Lilju Örnólfsdóttur og Unni Elísabetu Gunnarsdóttur dönsurum og fjallar um tímann þegar flestir eru í fastasvefni, milli 03:00 og 06:00.
Orkan var mikil á sviðinu og það var því auðvelt að hrífast með og hugsanir fóru á flug. Tónlistin var fjölbreytileg og samtvinnaðist verkinu vel, en það mátti m.a. heyra í Beck og Ásgeiri Trausta…
Dansarar takast á við mörk veruleika og drauma og áleitnar hugsanir. Verkið kom virkilega skemmtilega á óvart og var bæði kröftugt, táknrænt og lifandi. Umgjörðin var mjög flott og dansararnir sýndu sínar bestu listir. Orkan var mikil á sviðinu og það var því auðvelt að hrífast með og hugsanir fóru á flug. Tónlistin var fjölbreytileg og samtvinnaðist verkinu vel, en það mátti m.a. heyra í Beck og Ásgeiri Trausta…
Dansarar í sýningunni Ótta eru: Ásgeir Helgi Magnússon, Brian Gerke, Cameron Corbett, Ellen Margrét Bæhrenz, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Steve Lorenz og Unnur Elísabet Gunnarsdóttir. Ég var mjög hrifin af þessu nýja og áhrifaríka íslenska dansverki og fannst kærkomin gjöf að fá að berja það augum.
Bæði dansverk afmælissýningarinnar voru í styttra lagi, réttur hálftími. Seinna verk sýningarinnar var sem áður sagði Walking Mad en það er afar gamansamt – eins og reyndar fyrra verkið var líka! Í dansýningunni Walking Mad er tekist á við brjálæði og því krefst það mikils af dönsurunum sem þurfa að fylgja stigmagnandi takti tónverksins ásamt því að tjá miklar tilfinningar á sviðinu.
Dansarar sýningarinnar eru: Aðalheiður Halldórsdóttir, Ásgeir Helgi Magnússon, Brian Gerke, Cameron Corbett, Hannes Þór Egilsson, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Karl Friðrik Hjaltason, Steve Lorenz og Unnur Elísabet Gunnarsdóttir.
Þessir dansarar sýna allir að þeir eru á mjög háu plani, bæði tæknilega og í tjáningu sinni á sviði. Virkilega orkumikill og flottur hópur þar á ferð. Verkið Walking Mad var hressandi en sló einnig á viðkvæma þræði hjá áhorfendum. Ég myndi segja að þetta sé alveg virkilega falleg sýning, enda hefur danshöfundurinn Johan Inger hlotið aljóðleg verðlaun fyrir uppsetninguna.
[youtube]http://youtu.be/NT_6OZR06K0[/youtube]
Hér er á ferð dans eins og hann gerist bestur hér á landi. Báðar sýningar eru fallegar, vekja til umhugsunnar og skemmta. Það er nú varla hægt að hugsa sér að fagna afmælisári Íslenska Dansflokksins á betri hátt!
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.