Hann gengur upp að þér, horfir beint í augu þín og brosir eins og hann eigi þig með húð og hári.
Þú reynir að brosa ekki á móti þar sem þú ert alls ekki að leita þér að karlmanni, en þegar hann þrálátlega lætur ekki af því að brosa þá geturðu ekki lengur haldið aftur af þér og munnvikin dragast út að eyrum.
Fyrr en varir eruð þið farin að spjalla saman og þú nýtur þess að tala þar sem hann er svo rosalega góður hlustandi. Hann hefur innilegan áhuga á því sem ÞÚ hefur að segja og um leið hallar hann sér fram á borðið og horfir beint í augun á þér –Er maðurinn virkilega ástfanginn eða er hann kannski bara svona rosalega flínkur í að daðra? Þú ert allavega búin að bíta á öngulinn!
Hvað er daður?
Orðabókin (1978) er snubbótt og sveitó þegar það kemur að skilgreiningu á þessu orði:
1. Þegar hundar dilla rófunni.
2. Dufl, ástleitni, daðurdrós, daðurgjarn.
Það að orðið drós skuli koma við í þessari skilgreiningu segir manni t.d. að einhverntíma hafi nú aldeilis ekki þótt fínt að daðra hér á landi. Frökkum hefur þó hinsvegar alltaf þótt hið besta mál að daðra og af mörgum hefur daður verið skilgreint sem hálfgert listform, íþrótt eða eitthvað þar mitt á milli (eins og skák).
Við Íslendingar eigum okkur því miður takmarkaða listasögu í flestu sem viðkemur ást og kynlífi. Bókmenntir um þessi efni takmarkast við Pilt og stúlku og Bósasögur og þar með er eiginlega flest upp talið.
Við höfum aldrei nokkurntíma átt auðveldan aðgang að efni sem fjallar um listir ástarinnar og leikina þar í kring. Kannski er það út af þessum bagalega skorti á erótísku þjóðaruppeldi að margir Íslendingar, bæði konur og karlar, halda því fram að þau kunni alls ekkert að daðra og sumir hafa reyndar alveg rétt fyrir sér: Að strunsa upp að ókunnugri manneskju spyrja viltíglas?! eða viltudansa!? — er ekki beint hægt að kalla daður.
Nú skulum við vinda okkur í nokkur daður ráð sem ættu að styrkja þig og hressa í þessari ágætu íþrótt og mundu, það er ekkert mál að læra þetta og allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi:
1. Augnsamband – Teldu upp að fimm
Augnsamband besta leiðin til að byrja en getur líka verið þrúgandi. Það er til dæmis alveg hrikalegt þegar einhver sem manni langar ekkert til að horfa á, nær augnsambandi og eftirleikurinn gengur út á að reyna að líta undan. Þessvegna skaltu reyna að útiloka möguleikann á höfnun með því að horfa sætt á einhvern sem þú telur þig raunverulega hafa séns í.
Góð regla er telja upp að fimm. Þ.e.a.s horfa í augun á honum og telja rólega upp að fimm í huganum. Líta svo hægt undan og láta hann um að kíkja næst. Ef hann lítur ekki undan á meðan þú telur fimm sekúndur í huganum, þá eru ansi miklar líkur á því að þið verðið farin að tala saman eftir smá stund. Augnaráðið skiptir einnig miklu máli. Þú átt aldrei að horfa í augun á manneskju eins og kjölturakki sem þarf að kúka. Það er ekki sexý. Að sama skapi máttu ekki stara án þess að brosa. Það er um að gera að segja eitthvað með augunum. Hugsa hvað þig langar til að segja og segja það upphátt í huganum, en mundu bara að hugsa ekkert óspennandi eins og hvað mamma þín hefur verið erfið á breytingaskeiðinu eða álíka vitleysu.
2. Sýndu einlægan áhuga
Í listinni að daðra er algjört lykilatriði að sýna viðfangsefninu áhuga, það er að segja eftir að þú ert komin það langt að geta hafið samræður við manneskjuna.
Svo er nauðsynlegt að hafa raunverulega löngun til að kynnast honum betur því annars geturðu bara komið þér í flækjur sem getur orðið erfitt að leysa. Til að byrja með er gott að tala um ykkar nánasta umhverfi og fara síðan út í það að spyrja spurninga sem eru áhugaverðar og skemmtilegar. Hvað gerirðu er t.d alltaf góð spurning og þegar svarið kemur skaltu kanna hvernig honum finnist starfið, hvort það standi til að prófa eitthvað nýtt og svo framvegis.
Spurðu bara eins mikið og þú getur og mundu að hlusta vel og vandlega á allt sem hann hefur að segja. Settu símann þinn á silent og ef hann hringir þá máttu helst ekki svara því það er fátt leiðinlegra en að vera á fullu í einhverri frásögn sem er svo rofin af leiðinlegri hringingu í gemsa. Svo veistu ekkert hver er á línunni. Hugsanlega mamma þín í sjokki af því ókunnugur köttur var búinn að rústa jukkunni hennar, eða fyrrverandi kærasta að heimta að þið ræðið málin. Þú gætir líka misst sénsinn því hver veit hvað hún/hann fer að gera á meðan þú ert í símanum.
Þegar fólk finnur að einhver sýnir þeim einlægan áhuga og hlustar af athygli þá verður það sjálfsöruggara og slakar á. Sömu tilfinningar kynda líka undir kynhvötinni þannig að áherslan á áhugasemi þína verður aldrei of mikils metinn. Gefðu þig alla/n í þetta.
3. Hrós
Hrósaðu fyrir útlit, klæðaburð eða eitthvað sem hann/hún segir eða gerir. Ef fólki finnst það vera sexí þá verður það sexí. Hrósið verður samt að vera einlægt og fallegt því það er ekkert eins ömurlegt og hrós sem ekkert vit er í. Ef þér dettur ekkert í hug þá skaltu ekki segja það en ef þér hreinlega finnst eitthvað fallegt um manneskjuna þá máttu alls ekki halda aftur af þér með það. Reyndar er hrós almennt mjög gott fyrirbæri í mannlegum samskiptum og ef fleiri væru ósparir á hrósin þá myndi margt ganga betur. Hnitmiðuð hrós eru líka vís til þess að virka vel. Þau sýna að þú hefur veitt manneskjunni sérstaka athygli. Dæmi um þetta er til dæmis að byrja setinguna á – Veistu það að ég kann svo vel að meta það hvernig þú…Eða, flott hvernig þú brást við þarna áðan os.frv.
4. Grín og glens
Það er svo gaman þegar það er gaman og þess vegna áttu að tala um eitthvað skemmtilegt eða gera grín að því sem þú sérð í kringum þig. Ekki fara að rökræða um hrunstjórn, trúmál, vændi, fóstureyðingar eða eitthvað annað alvarlegt í fyrstu samræðunum ykkar. Segðu frekar fynda sögu af sjálfri þér og sláðu á létta strengi. Fáir karlar fá staðist skemmtilegar konur sem taka lífinu ekki of alvarlega. Algjört skilyrði er að tala ekki um þína fyrrverandi, að sama skapi máttu ekkert vera að kvarta og kveina því enginn fílar leiðindaskjóður.
5. Snertu, en engan yfirgang
Reyndu að snerta hann án þess að gera það of ýkt. Einu sinni fór vinkona mín á deit með manni sem gerði ekki annað en að kreista axlirnar á henni við hvert einasta tækifæri sem hann fékk. Þetta fannst henni alger hryllingur. Það er jú eitthvað til sem heitir persónuleg mörk og með þessum kreistingi fór hann alveg yfir hennar. En ef þér tekst að finna þessa fínu línu á milli káfs og snertingar þá ertu í góðum málum. Að láta skóinn þinn snerta skóinn hans, eða hnén, eða koma við hendina þegar þú gefur eld, þetta er allt að virka.
6. Enga örvæntingu
Kynferðisleg örvænting er algert turn-off og garanteruð leið til að tapa í daðurleiknum. Þolinmæði hefur alltaf talist til dyggða og þess heldur þegar það kemur að ástarleikjum. Fyrir alla muni, ekki vera desperat. Það virkar bara á fólk sem er sjálft desperat og það veit aldrei á gott þegar tveir desperat einstaklingar grípa hvorn annan föstum tökum. Ef hlutirnir eru ekki að gerast á þínum hraða, þá skaltu bara snúa þér eitthvað annað eða skoða hvað það er sem er að stressa þig. Við vitum það öll að þegar það er verið að leita þá finnst ekki neitt en þegar þú ert ánægð með sjálfa þig þá er eins og fólk sogist að þér eins og rokkstjörnu.
7. Vertu bara þú sjálf
Ekki reyna að vera eitthvað sem þú ert ekki. Það er bara merki um stress og taugaveiklun og Sue Ellen úr Dallas hefur einkarétt á slíkum kynþokka og er sú eina sem gat borið hann. Vertu bara þú sjálf og þá fer allt vel. Með því kemurðu líka í veg fyrir þau mistök að þurfa að breiða yfir vandræðalegar lygar seinna meir. Útskýra til dæmis þegar þú hittir hann í Kringlunni af hverju þú ert í appelsínugulum slopp með Al Capone hatt úr plasti… þar sem þú ert að vinna í kjötinu í Hagkaup en ekki hjá Kaupþingi. Haltu bara þínu striki og vertu þú sjálf án þess að hrúga fram komplexum eða ýkja kosti þína. Þannig ertu mesta krúttið, hönkið, dúllan, bomban og allt þar á milli.
8. Sláðu um þig með flottum orðum
Ekki halda aftur af þér ef þú hefur góðan og breiðan orðaforða. Ef hann er hinsvegar takmarkaður þá skaltu bara læra nokkur flott orð og nota þau annað slagið án þess að það fari út í öfga. Flest fólk er hrifið af mælsku og laðast að þeim sem koma hugsunum sínum vel í orð en margendurtekin orð eins og djísuss, vottðefokk, oj hvað þetter leim, sjitt, slappaðaf’maar, alveg með’etta, eða endalaus sko og skilrru eru ekki vís til að laða að vel gerða manneskju af gagnstæðu kyni. Bölv og ragn er líka sérlega smekklaust og fráhrindandi og því skaltu halda aftur af þér með helvítísdjöfulsinsandskotans seríuna.
9. Ekki fara strax að tala um kynlíf
Leyfðu þér að kynnast manneskjunni aðeins áður en þið farið í það að sleikja rjómann af kökunni. Það er líka skemmtilegra að tala um kynlíf við manneskju sem maður hefur þegar laðast svolítið að. Það gerir þetta allt meira spennandi, því eins og áður segir, þolinmæðin er alltaf dyggð en sérstaklega þegar það kemur að ást, daðri og vonandi endanlega kynlífi, sambandi, bíóferðum, íbúð, börnum, kúkableyjum, skuldabréfum, tengdaforeldrum og svo framvegis. Þið vitið, pakkinn.
Gangi þér vel!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.