Saga frumkvöðulsins, og síðar milljarðamæringsins, Gabrielle Chanel er sannkallað ævintýri enda kannski ekki við öðru að búast.
Hún fæddist þann 19. ágúst árið 1883. Móðir hennar var fátæk þvottakona og faðir hennar verkamaður. Hún ólst upp við fátækt ásamt nokkrum systkinum en móðir hennar lést þegar hún var aðeins ellefu ára. Þá var hún send í klaustur þar sem hún ólst upp við mikinn aga til átján ára aldurs.
Chanel vissi snemma að hún vildi sviðsljósið og ekki leið á löngu þar til hún var byrjuð að sjá fyrir sér með því að syngja á kabarettklúbbum og börum. Hún kom þá fram á milli þess sem stjörnurnar tóku sér pásu og svo lét hún ílát ganga og þáði samskot fyrir.
Það var þá sem hún fékk gælunafnið Coco, en það kom til vegna tveggja eftirlætislaga sem hún söng á börunum. “Ko Ko Ri Ko” og “Qui qu’a vu Coco”.
Fór eigin leiðir
Chanel hafði lært að sauma í klaustrinu og meðan hún var ekki að syngja á börnunum sat hún við sauma og bætti hag sinn.
Hún var mjög sjálfstæð og fór eigin leiðir í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún byrjaði sem hattagerðakona og opnaði fyrstu hattabúðina sína árið 1910 á Rue Cambon 21. í París en ekki leið á löngu þar til vöruúrvalið í versluninni kallaði á stærra húsnæði.
Chanel flutti starfsemina í nærliggjandi hús, yfir á Rue Cambon 31, en þar stendur flaggskip keðjunnar enn í dag. Húsnæðið gengdi margbrotnu hlutverki. Það var íbúð, verslun, staður fyrir tískusýningar, samkomur, viðskiptafundi og margt fleira en hún hvorki eldaði þar né svaf.
Chanel, Kennedy og Monroe
Árið 1913 byrjaði Chanel að selja fjölbreyttari fatnað og ekki leið á löngu þar til hróður hennar barst um alla borg, síðar um alla Evrópu og eftir seinni heimstyrjöld varð Chanel heimsfræg, meðal annars vegna aðkomu gyðjunnar Marilyn Monroe, sem sagðist einungis sofa í Chanel no 5.
Upp úr 1960 var það svo sjálf forsetafrúin, Jaqueline Kennedy, sem kom sjaldan fram í öðru en drögtum frá Chanel.
Fatnaðurinn frá Chanel var mjúkur, kvenlegur og þægilegur. Hún lærði þó aldrei að sníða heldur klippti efnin og saumaði saman, beint á fyrirsæturnar.
Hún stúderaði fatnað af miklum áhuga, til dæmis tók hún áhrif frá hermönnum og reiðmönnum og færði yfir í kvenfatatískuna. Hún velti fyrir sér þörfum kvenna og lagði sig fram um að láta hönnun sína mæta þeim.
Alltaf vel tilhöfð
Frelsi og kvenfrelsi er mikið einkennismerki Coco Chanel. Hún fór á ströndina og varð brún þegar konur áttu að vera hvítar sem postulín, hún klæddi sig í buxur og klippti á sig topp. Hún var hönnuður, verslunareigandi, sjálfstæð fyrirmynd.
Fyrsta ilminn sinn, Chanel no 5, setti hún á markað árið 1924, sama ár og Chanel húsið var stofnað við rue Cambon 31. 1926 kom ‘litli svarti kjóllinn’ á markað ásamt rauða varalitlum og fyrstu húðlínuna setti hún á markað árið 1929.
Mikið hefur verið vitnað í Coco Chanel sem var alla tíð með það á hreinu hvernig hún vildi lifa lífi sínu.
Chanel fór ekki út fyrir hússins dyr án þess að vera vel til höfð enda hélt hún því fram að örlögin gætu alltaf beðið manns á næstu gatnamótum.
Hún sagði líka að lúxus væri ekki andstaða fátæktar heldur ruddamennsku og að þörfin fyrir lúxus kæmi úr dýrmætum hluta sálarlífsins.
Hún lét líka þau orð falla að kona án ilmvatns væri kona án framtíðar en Chanel var fyrsta konan til að markaðsetja eigið ilmvatn og hafa ilmirnir frá tískuhúsinu löngu skipað sér sess sem sígildir ilmir fyrir sjálfstæðar konur. Sjálf sá hún alltaf til þess að búið væri að úða íbúðina hennar vel með Chanel no. 5 áður en hún mætti til leiks á morgnanna en sjálf svaf hún á Ritz hóteli í næstu götu.
Fáguð, frjáls og falleg
Coco Chanel lést árið 1971, þá 89 ára. Hún var goðsögn í lifanda lífi en við kefli hennar tók Karl Lagerfeld árið 1983 og hefur haldið áfram á þeirri braut sem hún lagði.
Snyrtivörulína Chanel skipar ekki síður stóran sess hjá tískurisanum í dag en vörurnar eru margverðlaunaðar og nýjungum er ávallt tekið fagnandi af aðdáendum merkisins.
Chanel konan er klassísk, fáguð, frjáls og falleg. Hún eltist ekki við tískuna heldur hefur sinn eigin stíl sem endurspeglar sjálfstæði hennar í athöfnum og skoðunum. Eða eins og hún sagði sjálf:
„Chanel er ekki tíska, Chanel er lífsstíll.”
Nýlegar vörur frá Chanel á Box12.is
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.