Til eru skemmtistaðir sem komist hafa á spjöld sögunnar, til dæmis Studio 54 í New York og fleiri.
Af hverju sumir staðir verða svo þekktir er erfitt að segja.
Studio 54 var alræmdur fyrir að velja örfáa einstaklinga úr metralöngum röðum og gera lítið úr þeim sem ekki komust inn. Sagan segir að maður hafi látist við að reyna komast inn í gegnum loftræstikerfið.
Ef dyravörðurinn á Studio 54 sagði þér að hoppa til að komast inn, þá var eina svarið við því:
Hversu hátt?
Dýrari tegund af skemmtun
Undanfarin ár hefur farið mikið fyrir nýrri tegund af skemmtistöðum.
Þeir eru ekki frægir vegna allra stjarnanna sem flykjast þangað inn eða frægra plötusnúða sem spila undir dansi. Nú eru aðalstaðirnir einfaldlega með einn vínlista, yfirleitt bara með kampavíni og verðin eru stjarnfræðilega há. Þangað sækja allskonar einstaklingar sem eiga það eitt sameiginlegt að hafa dýran smekk fyrir djammi.
Ciruque le Soir er einn af þeim klúbbum sem halda úti takmörkuðu úrvali af drykkjum en verðmiðinn á hverju glasi hleypur á tugum þúsunda. Staðurinn opnaði í Soho-hverfi í London árið 2009 og þykir nú heitasti staður borgarinnar.
Vissulega er staðurinn hinn glæsilegasti, engu er til sparað og frægustu stjörnurnar láta sjá sig þar en það sem dregur að fólk er einfaldlega möguleikinn á því að eyða meira fé í drykki en venjulegt fólk fær í laun á fimm ára tímabili. Tækifærið til að sýna fram á eigin ríkidóm virðist aðlaðandi leið til að eyða kvöldinu (og peningum).
Drykkjarföng fyrir milljónir
Sem dæmi má nefna að ein stór flaska sem inniheldur um sex lítra af kampavíni kostar tvær til sjö milljónir íslenskar krónur á Cirque le Soir. Slík kampavín þarf að drekka innan tveggja tíma eftir að flaskan er opnuð því annars skemmist innihaldið. Það er því ekki um langtíma fjárfestingu að ræða.
Á klúbbnum hafa sést stjörnur á borð við fyrirsætuna Cara Delevingne, Miley Cyrus, Kanye West, Will.i.am, Bradley Cooper, Leonardo Di Caprio og Rihanna.
Stjörnuljós og djammdrósir
Athyglin sem fylgir því að festa kaup á kampavínsflösku sem kostar jafn mikið og fólksbíll, fá hana til sín á silfurplatta með tilheyrandi confetti sprengjum og stjörnuljósum og vera umkringdur ,,djammdrósum” (fallegar ungar stúlkur sem sækjast í slíka klúbba til að drekka frítt áfengi- þekkt fyrirbirgði í klúbbamenningunni) virðist hafa svo sterkt aðdráttarafl að Cirque le Soir er að springa öll fimm kvöld vikunnar sem hann er opinn.
Svo mikil er eftirspurnin að Cirque le Soir hefur nýlega opnað útbú í Dubai. Olíufurstar þurfa því ekki að ferðast langt til að geta slett úr klaufunum.
Aðkeypt hamingja
Hversu mikil mánaðarleg velta er hjá skemmtistað sem Cirque le Soir er erfitt að vita enda ekki beint fyrirtæki sem er með bækur sínar opinberar. Oft hafa staðir sem þessir verið mest megnis reknir á sölu ólöglegra eiturlyfja, m.a. áðurnefnt Studio 54 og miðað við hvernig vínlistinn er á Cirque le Soir þá er líklegt að eigendurnir geri það gott einungis með því að selja kampavín og tímabundna hamingju fyrir fólk sem telur sig geta keypt slíkt.
Að vakna með timburmenn og kvittun upp á sjö milljón króna kampavínsflösku gefur orðinu ,,djammviskubit” alveg nýja merkingu – en hey, ef þú átt nóg af peningum…
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.