Undanfarna morgna hef ég gætt mér ýmist á chiagraut eða hafragraut sem inniheldur allskonar viðbætt góðgæti, og þá alltaf chiafræ líka.
Upp úr því skellti ég mér í leiðangur á netið og fann fróðleik um chia fræin því þau eru svo góð og ekki síst seðjandi. Það þarf ekki mikið af chia graut til að verða alveg pakksödd og það á góðan og þægilegan hátt.
Solla Eiríks hefur lengi verið fremst meðal jafningja í hverskonar heilsufræðum hér á landi og hún deilir reglulega með vinum sínum á Facebook, myndum og uppskriftum af því sem gleður og göfgar líkamann.
Í myndinni hér fyrir ofan er chiagrauturinn sem þessi elska fær sér á morgnanna en í hann setur hún chiafræ sem belgjast upp í möndlumjólk (einn á móti 2-3 hlutum), svo koma ber að eigin vali, t.d. bláber, mórber og hindber… og svo hampfræ og blómafræflar til að bæta heilsuna enn meira.
Það besta er að þú getur samt sett hvað sem er í chia grautinn þinn þar sem fræin sjálf eru hálf bragðlaus. Í morgun setti ég banana og kanil á minn en auðvitað getur þetta verið hvað sem hugurinn girnist hverju sinni.
Best er að láta fræin standa í möndlumjólk (og berjum) inni í ísskáp yfir nóttina því þau eru mikið næringarríkari þegar þau eru hrá. Þau eru líka óskaplega góð. Minnir svolítið á sagó graut. En aftur að rannsókn minni á chia. Eftirfarandi upplýsingar koma af Heilsubankanum og eftir lesturinn held ég að þetta verði héðan í frá fastur liður í innkaupum heimilisins:
Það má segja að þessi litlu krúttlegu fræ hafi lagt heiminn að fótum sér, slíkar eru vinsældir Chia.
Enda eru þau alveg mögnuð, ótrúlega rík af næringarefnum og eru því talin til fæðu sem fellur í svokallaðan ofurfæðu flokk. Saga chia fræsins nær allt aftur til 3500 F.K. og eru þau talin hafa verið mikilvægur hluti af fæðu Maya og Azteca.
Chia fræin er mjög próteinrík og innihalda allt að 30 gr af próteini í hverjum 100 gr sem er meira en er að finna í kjúklingabringu eða lambalæri! Það eru því tilvalið að bæta þeim út í orkudrykki , brauð og grauta til að auka próteininnihald máltíðarinnar.
Chia fræin eru einnig mjög rík af lífsnauðsynlegum omega 3 og omega 6 fitusýrum. Þau eru ríkasta uppspretta omega 3 sem völ er á í jurtaríkinu og myndu því teljast sérlega góð fyrir einstaklinga með bólgusjúkdóma, þar sem omega 3 myndar bólgueiðandi efni í líkamanum.
Yfirleitt skemmast omega fitusýrur við eldun en í chia fræjunum virðast þær þó ekki skemmast, sökum þess að fitusýrurnar eru bundnar andoxunarríkum trefjum fræsins. Þó er enn betra að nota chia fræ í hráu formi.
Þessir litlu næringarrisar eru mjög ríkir af kalki, járni, magnesíum og fosfór og eru einnig stútfullir af trefjum.
![Mikil fegurð](https://i0.wp.com/pjatt.is/wp-content/uploads/2014/04/chiachia.jpg?resize=272%2C272)
Líkaminn þarf á andoxunarefnum að halda til að viðhalda eðlilegri íkamsstarfsemi og æskuljóma. Chia fræ eru mjög rík af andoxunarefnum og stuðla því að heilbrigði hverrar einustu frumu líkamans.
Chia fræin eru einstaklega blóðsykursjafnandi sökum hás innihalds próteins, trefja og fitusýra og stuðla því að betra blóðsykursjafnvægi.
Þau geta allt að 12 faldað þyngd sína ef þau eru látin liggja í vatni í dálitla stund, þau bólgna út og eru mjög seðjandi og gefa góða seddutilfinningu.
***
Að þessum lestri lokum mæli ég auðvitað heilsu-hugar með því að allir prófi að skella sér í chia tilraunir. Þetta gerir líkamanum svo óskaplega gott og er í raun bara góður matur og gott hráefni sem gaman er að prófa sem tilbreytingu frá þessu sem við erum vön .
Chiafræin eru líka góð í hverskonar bakstur og almennt þarf mjög lítið af þeim svo að poki af chia fræjum dugar þér að minnsta kosti út eina viku og upp í tvær ef þú borðar graut á hverjum morgni. Svo örvæntu ekki yfir hlutfalli verðmiðans á móti stærð chiapokans.
Þetta skilar sér allt í góðri heilsu og betra útliti og þar af leiðandi betri líðan og meiri hamingju, – sem við stefnum öll að ekki satt?
![](https://i0.wp.com/pjatt.is/wp-content/uploads/2023/03/IMG_4560-e1679409764904.jpg?resize=100%2C100&ssl=1)
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.