Ég fékk þrjár bækur í jólagjöf, Brakið eftir Yrsu, Einvígið eftir Arnald og svo Gamlingjann eftir Jonas Jonasson.
Það er alltaf gaman þegar bækur koma manni á óvart, ég hafði ákveðna væntingar til íslensku bókanna og stóðst önnur væntinguna meðan hin féll hraparlega á vinsældarlistanum hjá mér og vonbrigði yfirtóku lesturinn, en ég kláraði nú samt bókina. Læt það vera hérna hvor bókin vann hina, en sú sem kom mest á óvart og mér þótti mest gaman af var Gamlinginn.
Ég var nýbúin að lýsa þeirri skoðun á blogginu mínu að ég hefði engan áhuga á kalda stríðinu, næstum því búin að blóta því að ég myndi seint nenna að lesa bækur sem fjölluðu um pólitík og stríðsástand á milli landa þegar ég opna Gamlingjann og svona kolfell fyrir honum.
Þar sem bókin fjallar um ævi 100 ára gamals manns, þá er varla hægt að komast hjá því að lenda í einu stríði hér og þar, valdabaráttu og verða fyrir allskonar nöfnum á allskonar mönnum sem reyndu að misstjórna löndum í austur og vestur, jafnvel suður og aðrir norður en svo fór það og ég endaði uppi með að lesa bók sem gerðist árið 2005 mínus 100.
En stundum er það þannig að höfundar ná að gera sögusvið áhugavert og skemmtilegt (jafnvel fróðlegt) bara með því að segja skemmtilega frá, hafa lifandi persónur í sögum sínum og smá húmor í leiðinni en það er akkúrat það sem bókin gerir svo listarlega og þar með held ég svei mér þá að þetta sé næst skemmtilegasta bókin sem ég las á árinu, en sú allra skemmtilegasta var Bókmennta- og kartöflubökufélagið.
Ég mæli með Gamlingjanum! (ef þú ert í vandræðum með að skipta jólabókunum og vilt velja aðrar) áhugaverð, fyndin og fróðleg ásamt því að vera hin besta skemmtun.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.