Margir kannast við slagorðið “Í kjólinn fyrir jólin”. Ég var að búa til annað betra: “Burt með bumbuna og beint í bikiní!”
Ehhhh…? Kannski pínu púkó en þetta er allavega planið hjá mér. Mig langar að komast í form fyrir sumarið.
Þannig er nefinlega mál með vexti að ég var í fínasta formi síðasta sumar. Gat skellt mér í hvaða flík sem er og verið bara: “Vó hvað ég er hot” í mátunarklefanum.
Ég hafði stundað ræktina af kappi og borðað hollt. Svo kom að því að mér fannst ég verða að byrja að verðlauna mig fyrir vel unnin störf og hvaða verðlaun eru betri en hamborgari og franskar?! Ég bara spyr.
Áður en ég vissi var ég steinhætt að mæta í ræktina, buxnastrengurinn orðin allt of þröngur og út spratt þetta sem við köllum “hannyrðamagi” en það er magi sem hægt er að hvíla prjónana á. Rosa slakur. Ekkert stress. Húrra fyrir því!
Hannyrðamagi er eflaust fínn fyrir suma en vandamálið er að ég FÍLA MIG ALLS EKKI þannig. Ég er með diskó í blóðinu og það er ekki diskó að vera með bumbu. Hvernig hefði Donna Summer verið með bumbu? Eða Bee Gee’s bræður? Svo prjóna ég ekki.
Til að sigrast á vandanum skráði ég mig í átaksnámskeið hjá Hreyfingu í Glæsibæ.
Mikill snilldarstaður það og margt gott um hann að segja. Frábær aðstaða til að mála sig (annað en í Laugum), æðislegur matur og dásamlegir próteinsjeikar svo ekki sé minnst á námskeiðið sem ég er á en það heitir –Árangur Extra!
Ég er reyndar þessi týpa sem hef aldrei áður farið í svona hóptíma. Bara prófað einkaþjálfun. Kannski fordómar fyrir eróbikki eða eitthvað en núna er ég allavega komin á fullt og alveg yfir fordómana. Þetta er ferlega gaman. Kennarinn Guðbjörg er með þeim hressustu sem ég hef hitt og hún kann þetta enda hokin af reynslu eftir 20 ár í bransanum. Svo er hún rosalega hvetjandi og skemmtileg og tímarnir svo fjörugir að klukkutími verður að korteri.
Og auðvitað er ég öll að sjeipast upp. Plana matseðil út vikuna (mæli með því!), borða hafragraut á morgnanna, þamba vatn og finn súrefnið flæða um skrokkinn. Sef betur, lúkka betur, líður betur..
Mæli með Hreyfingu. Mæli með málshættinum: Burt með bumbuna og beint í bikiní!
Jei!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.