Vissir þú að það er hægt að lækka kostnað við brúðkaup um helming með því að kaupa inn með fyrirvara af AliExpress?
Fyrir ekki svo löngu skrifaði ég pistil um ágæti þess að versla á AliExpress og naut hann nokkurra vinsælda.
Málið er að þegar upp rennur það móment að virkilega þarf að fara að budget-a hlutina, þá getur orðið gaman að ráfa um ótal ganga AliExpress!
Til dæmis eins og þegar brúðkaupsundirbúningur er í hámarki. Í mörg horn er að líta og þúsundkallarnir, tíuþúsundkallarnir og jafnvel hundraðþúsundkallarnir æfa sundtökin hörðum höndum úr veskinu þínu og í vasa verslunareigenda.
Einusinni sá ég um undirbúning á brúðkaupi. Það var fyrir tíma AliExpress en þess í stað var blómatímabil Ebay í fullum gangi. Þar fengust hlutirnir ódýrari og það nýtti ég mér alveg þar til kýrnar komu heim! Jakkaföt á brúðgumann – silkið í brúðarkjólinn – glingur og skart sem þurfti til að útbúa það sem mig vantaði og svo frv. Ég var alvarlega farin að spá í að prenta Ebay logoið á servétturnar…
Málið er að þegar kemur að veisluundirbúningi og þá sérstaklega brúðkaupsundirbúningi, þá lítur Ebay út eins og óvinsæla og hæfileikalausa litla systir AliExpress, og það er hreinlega hægt að sleppa sér þarna inni!! Um leið og maður pikkar inn “Wedding” þá koma upp allskonar uppástungur um leitarorð sem gætu hentað þér, og þú getur hreinlega gleymt þér þarna inni, en á sama tíma varla snert fjárhagsáætlun veislunnar!
Ég ákvað að taka nokkur af leitarorðunum sem AliExpress stakk upp á og sýna ykkur hversu vel er hægt að spara og fá skemmtileg veisluföng á sama tíma. Ég mæli með því að smella á myndirnar og skoða þær stækkaðar þar sem verð kemur allsstaðar fram á myndunum (smelltu til að stækka þær).
1. Brúðarkjóll
Svo við byrjum bara á því mikilvægasta! Brúðarkjólar geta verið með stærstu kostnaðarliðum á fjárhagsáætluninni, jafnvel þó þeir séu teknir í leigu. Leiga á brúðarkjólum er yfirleitt á milli 50 og 100 þúsund krónur og getur það því alveg borgað sig að byrja á að panta kjól af Ali fyrir brotabrot af þeirri upphæð og athuga svo hvort hægt sé að fá saumakonu til að laga hann til ef hann passar ekki almennilega:
2. Skór við kjólinn
Hinir fullkomnu skór við brúðarkjólinn geta líka auðveldlega kostað skildinginn, þá er nú gott að bregða sér aðeins inn á Ali og hafa úrvalið að velja úr:
3. Boðskortin
Margir búa reyndar til sín eigin boðskort, en bæði er hægt að finna falleg boðskort inni á Ali og skutlast þangað inn til að fá hugmyndir sem hægt er að nýta í eigin föndri. Boðskortin á Ali eru kannski ekki neitt ofsalega ódýr sum hver en hugmyndirnar bæði góðar og fallegar:
4. Kökutoppar
Eftir að sykurmassi fór að ryðja sér til rúms á Íslandi hafa kökurnar breyst úr venjulegum kökum í listaverk og þá er gaman að fá skemmtilegann kökutopp til að kakan fái að njóta sín enn betur. Úrvalið af kökutoppum er mjög mikið og skemmtilegt inni á AliExpress:
5. Hringapúði
Hringapúðar eru eitt af þessu sem margir eiga það til að gleyma en svo skemmtilegt og auðvelt að krútta upp atöfnina með því að annaðhvort láta barn hjónanna ganga inn með púðann eða eitthvað álíka yndislegt. Þetta vita vinir okkar á Ali og eru þessvegna með gott úrval fyrir verðandi brúðhjón:
6. Myndatökuprops
Myndirnar skipta rosalega miklu máli og mikil hefð hefur skapast fyrir að taka myndir bæði af brúðhjónum og svo veislugestum. Þá er gaman að vera með skemmtilegt props sem hægt er að grípa í:
7. Skreytingar
Skreytingar fyrir salinn eru oft ágætis biti fyrir fjárhagsáætlunina. Blóm er eitthvað sem ég myndi kannski ekki kaupa á AliExpress en margt annað er hægt að fá á spottprís til skreytinga í salinn á Ali og þá oft eitthvað sem ekki endilega er hægt að nálgast svo auðveldlega hérlendis:
Eins og ég hef sagt áður, þá fæst ALLT inni á AliExpress! Það skiptir ekki máli hvernig veislu þú ert að fara að halda, hvaða þema þú ætlar að vera með og hversu brjálæðislega þú ætlar að taka skreytingarnar…
AliExpress er með það sem þig vantar! Það eina sem þú þarft að gera er að vera skipulagður/skipulögð, og panta snemma og þá ert þú að fara að halda veislu sem verður talað um næstu árin!
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.