Það er bara eitthvað við brúðkaup sem heillar mig gersamlega upp úr skónum…
Alveg frá því ég man eftir mér hef ég verið að pæla í brúðkaupum og eftir því sem ég varð eldri hefur þetta þróast úr pælingum yfir í eitt helsta áhugamálið mitt.
Hugsa daglega um brúðkaup
Það líður varla sá dagur sem ég hugsa ekki um brúðkaup og ég er ekkert endilega að skipulegga mitt eigið, þetta er bara eitthvað sem ég nýt þess að skoða. Fram og aftur en bara 13 ára var ég byrjuð að teikna brúðarkjóla.
Flestar hugmyndir sem ég fæ skrifa ég niður, allar myndir sem heilla mig vista ég en nýlega uppgötvaði ég Pinterest og nota það aðeins en ég er líka með albúm á Facebook fyrir brúðarmyndir.
Einnig hef ég búið til svona ‘mood boards’ eins og sjá má í galleríinu að neðan.
Góðar minningar
Það er svo misjafnt hvað fólk leggur áheyrslu á varðandi sitt brúðkaup. Sumir vilja fjölmenna veislu þar sem öll ættin mætir, aðrir vilja bara sína nánustu og aðrir fara til sýslumanns.
Það sem skiptir öllu máli er að stóri dagurinn skilji eftir sig góðar minningar og það má ekki gleyma að þessi dagur er fyrir mann sjálfan og makann, ekki ættingja og vini þó að þau eigi vissulega líka að hafa gaman af.
Bónorðin
Mér finnst ofsalega gaman að horfa á fólk bera upp bónorðin en þetta er oft hægt að sjá á netinu, t.d. Youtube.
Auðvitað eru sum pör sem ákveða þetta bara í sameiningu, og það er líka gaman, en ég sjálf hefði ekki viljað gera það. Ég er þessi súper rómantíska týpa sem elska að koma unnusta mínum á óvart og finnst jú auðvitað líka mjög gaman að láta koma mér á óvart.
Við Siggi höfum verið trúlofuð í fjóra mánuði. Bónorðið var mjög rómantískt eins og hann er nú sjálfur. Á aðfangadag vorum við bara tvö, öll börnin hjá hinum foreldrum sínum. Við vorum í mat hjá tengdó og hann var svo spenntur eitthvað, ég hélt að það væri bara því að hann er svo mikið jólabarn eins og ég sjálf.
Við fórum svo heim stuttu eftir matinn að opna eitthvað af pökkunum okkar. Hann lét mig hafa pakkanna mína og ég hélt að þetta væri allt komið og var rosa glöð en svo segir hann mér að leita undir trénu, að það sé einn pakki þar í viðbót og ég leita og leita í öllum þessum pakkafjölda, rosalega spennt.
Næsta sem ég veit er að hann kemur aftan að mér og knúsar mig, -og er á hnjánum með æðislega fallegan demantshring og biður mig að giftast sér, ég fékk auðvitað tár í augun, var ekki að trúa þessu og sagði að sjálfsögðu já!
Síðan höfum við verið á fullu að skipuleggja brúðkaupið okkar, búin að skipta nokkrum sinnum um skoðun varðandi fjölda gesta og loksins búin að taka ákvörðun.
Við ætlum að gifta okkur á afmælinu hans Sigga í október og bara allra nánustu og börnum er boðið en 1/3 af gestunum eru börn. Brúðkaupið verður í hádeginu og okkur hlakkar rosalega mikið til, margir ákveða að bjóða ekki börnum en þar sem börn eru svo stór hluti af okkar lífi þá ákváðum við að leyfa börnunum okkar og frændum okkar og frænkum að vera með og verður alveg nóg fyrir krakkana að bralla.
Þegar það kemur að brúðkaupi finnst mörgum gott að fara eftir ákveðnum lista um það sem þarf að gera fyrir stóra daginn, það er að segja þau sem ætla að halda veislu. Mér persónulega finnst bara gott að fara eftir okkar hugmyndum því við viljum ekki hafa minninguna um undirbúninginn of mikið eftir bókinni.
Trúlofunarmyndataka er algeng víða erlendis þó sá siður sé ekki komin hér. Þetta þýðir að parið fer í myndatöku saman einhverntíman eftir að það trúlofar sig og flest nota þá þær myndir í til dæmis boðskortin og myndabækur sem eru stundum hafðar til sýnis í veislunni sjálfri. Við erum einmitt að fara í myndatöku saman í sumar og ég hlakka mikið til enda alltaf gaman að eiga fallegar myndir sem varðveita minningarnar og augnablikin um ókomna tíð.
Ein besta ráðleggingin sem ég hef fyrir þau sem eru að fara að gifta sig er að vera róleg, hafa gaman af þessu, taka ákvarðanir saman og hafa það alltaf í huga að þetta er dagurinn ykkar.
Ekki hafa áhyggjur af því að fólk verði pirrað sé þeim ekki boðið því þetta er ykkar ákvörðun. Einnig er gott að ákveða þá upphæð snemma sem á að eyða í brúðkaupið og skipuleggja út frá því.
Ég er alveg handviss um að brúðkaup eigi alltaf eftir að vera eitt af mínum aðal áhugamálum og ég veit að ég verð svo heppin að fá að hjálpa vinkonum mínum að skipuleggja sín brúðkaup – Þetta er svo skemmtilegt!
Bjarney Vigdís er mikil áhugamanneskja um allt sem viðkemur heilsu, uppeldi, eldamennsku, tísku, förðun, handavinnu, fegrun heimilisins og öðru pjatti. Hún er menntaður förðunarfræðingur og er jafnframt framúrskarandi húsfreyja sem heldur einnig úti sinu eigin bloggi. Hún býr á vesturlandi í litlum bæ ásamt manni sínum og 6 börnum.