Ó, ég datt inn í að skoða svo fallegar brúðkaupsmyndir. Sennilega ekki það hollasta sem einhleyp kona gerir á dimmu kvöldi í janúar.
En ég hugga mig við að ég er samningsbundin. Fyrir mörgum árum gerði ég samning við strákinn sem elskaði mig í þriðja bekk í grunnskóla – verðum við bæði ógift þegar við erum fertug þá munum við ganga í það heilaga. Við hittumst núna um jólin eftir margra ára aðskilnað og sættumst á að samningur þessi væri enn í gildi. Þannig að ég er róleg. Í bili.
Umræddur karlmaður er að vísu samkynhneigður en það er í góðu lagi. Fái ég að spóka mig um í fallegum kjól þá get ég vel við unað. Sennilega mun ég líka ætlast til að fá brúðkaupsferð – en við höfum nú góð ellefu ár bæði til að ganga út og fullklára samninginn.
En að myndunum. Þær eru dásamlegar. Nema fyrir viðkvæmt einhleypt fólk.
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.