Nú þegar sumarið er komið eru ótal margir sem ganga í það heilaga. Ég hef séð um skreytingar í mörgum veislum og fengið ótal margar fyrirspurnir um hvað sé hægt að gera. Svo hér koma nokkar hugmyndir…
Skipuleggja þarf allt mjög vel og vanda til verks. Borðskreytingar skipta miklu máli ef þið vilt fanga rómantíkina og rétta andrúmsloftið í veislunni.
Byrjaðu á því að hugsa um liti sem þið viljið hafa. Sumir vilja hafa allt einfalt og velja sér hvít blóm, smá glitter og kertaljós. Aðrir velja sterkari liti og þá er jafnvel gaman að blanda nokkrum sterkum litum saman, sérstaklega í sumarbrúðkaupum. Hugsaðu líka um hluti sem þú átt nú þegar til og getur notað í borðskreytingar eins og: Sultukrukkur, stóra steina, trjágreinar, myndir, glervasa í öllum stærðum og gerðum. Sultukrukkurnar geturðu notað undir blóm og kerti. Þú getur líka málað þær í hvaða lit sem er og þá myndast skemmtilegt andrúmsloft í kringum birtuna af kertunum í krukkunum.
Steinana geturðu spreyjað með silfur eða gull spreyi, jafnvel nokkra og haft hina steinana náttúrulega, sett blóm í kring og notað sem borðskreytingu. Mjög fallegt, gróft og töff.
Eins geturðu prentað út fjölskyldumyndir og límt þær saman í renning og haft eftir endilöngu borðinu. Við það skapast fjörugar og skemmtilegar umræður við matarborðið.
Trjágreinar eru líka hentugar til að hafa eftir endilöngu borðinu og láta þær lafa út af borðinu í báða enda. Flott er að spreyja hluta af greinunum eða strá glimmeri yfir þær. Fallegt er að hafa litlar glerkrukkur eða glerkertastjaka með greinunum.
Svo eru það blómin, blóm eru alltaf falleg. Alveg sama hvaða blóm þú velur þá getur það ekki klikkað. Skelltu saman nokkrum fallegum blómum og settu í vasa. Í haustbrúðkaupum er vinsælt að nota laufblöð sem borðskreytingu. Laufblöðin eru í svo mörgum fallegum litum og njóta sín vel á hvítum dúk. Oft eru strá líka þurrkuð og sett í stóra vasa. Mjög fallegt og ódýr lausn. En það er um að gera að fara aðeins út fyrir rammann og skoða það sem til er og nota það sem borðskreytingu. Blanda svo fallegum blómum við og kertum, passa bara að hafa þau örugg.
Hér koma nokkrar myndir sem sýna fjöldann allan af hugmyndum.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.