Það er eins og við manninn mælt. Á hverju einasta vori verður allt vitlaust á Facebook vegna þess að kettir eiga það til að veiða fugla. Það fyllist jú allt af fuglum þegar sól hækkar á lofti og kettir eru í eðli sínu rándýr, þó sumir séu meiri veiðikettir en aðrir.
Hér áður fyrr voru kettir fyrst og fremst hafðir á bæjum til að halda músagangi í skefjum. Góður veiðiköttur þótti eftirsóknarverður því með því hélt hann óværunni frá innandyra. Kettir veiða ekki bara fugla og mýs heldur passa þeir upp á að allt fyllist ekki af flugum og kóngulóm. Þeir eru ágætis skepnur.
Í sönglagi sem flest leikskólabörn á Íslandi kunna utanbókar er einmitt komið inn á þennan góða kost kisunnar, að friða húsið með því að veiða mýsnar.
Komdu, kisa mín!
Kló er falleg þín
og grátt þitt gamla trýn
Mikið malar þú, mér það líkar nú
Víst ertu vænsta hjú
Banar margri mús,
mitt þú friðar hús
Ekki er í þér lús,
oft þú spilar brús
Undrasniðug,
létt og liðug
leikur bæði snör og fús
Við skulum drekka dús
Kettir og fuglar fylgja mannfólkinu
Það virðist svo vera að öskufúlir fuglavinir setji ekki alveg samhengi á milli þess að í borginni er allt fullt af smáfuglum, vegna þess að hér eru svo mörg tré sem við manneskjurnar höfum gróðursett. Þeir fylgja okkur, alveg eins og hundar og kettir. Nema hvað að smáfuglarnir eru ekki gæludýrin okkar (þó þeir gætu verið það ef við myndum ala þá upp frá því þeir væru ungar). Manneskjur hafa alltaf gert upp á milli dýra og þótt sum betri en önnur. Sumt fólk skilgreinir sig sem „hundamanneskjur“ meðan aðrir eru meira fyrir ketti. Líklegast á þetta að endurspegla eðli þess sem um ræðir, sem þýðir að „hundafólk“ kann meira að meta fjör og trygglyndi hundanna meðan „kattafólk“ kann að meta dulúð og værð kattarins. Telja sig jafnvel búa yfir þessum eiginleikum sjálf.
Hata ketti og borða kjöt
Hvað áðurnefnda fuglavini varðar þá mættu þau alveg hugsa sig tvisvar um áður en þau byrja að úthúða köttum og eigendum þeirra á samfélagsmiðlum. Í fyrsta lagi þá finnst öllum auðvitað pínu leiðinlegt að kettir skuli vera svona brútal. Að mæta bara inn til eigenda sinna með blóðugan fugl. Það eru eflaust fáir sem fagna því og launa kettinum með rækjuskammti. En eðlið verður ekki tekið úr kettinum. Og á sama tíma og við fárumst yfir þessu, þá förum við út í búð og kaupum okkur lambakjöt og kjúklinga sem einhver manneskja hefur slátrað og þetta leggjum við okkur til munns.
Engin útrýmingarhætta
Svo er það annað að þrestir og starrar eru alls ekki í neinni útrýmingarhættu og því er kannski algjör óþarfi að brjálast út í ketti og kattareigendur, og heimta að þessi gæludýr séu lokuð inni, bara vegna þess að fuglarnir eru mættir. Auðvitað er sjálfssagt að setja einhverja kraga á kisurnar og reyna þannig að stemma stigu við þessu, en eðlið verður ekki tekið úr kettinum frekar en matarlystin úr kjötætunni sem gengur stundum svo langt að klófesta heimilisketti og keyra þá eitthvað út í buska til að fuglar fái frið, eigendum þeirra til örvæntingar og ama. Það hlýtur að liggja í augum uppi að slíkt athæfi er grimmdarlegt þó góðvild í garð fugla liggi að baki. Alveg eins og það er grimmdarlegt af kisu að veiða fugl en það vakir gott eitt fyrir henni því þegar þær drösla dauðum fuglum inn á heimili þá eru þær aðeins að reyna að gleðja eigendur sína. Launa þeim matargjöf.
Munurinn á ketti og manneskju er hinsvegar sá að manneskjan sem ekur með mjálmandi heimiliskött upp að Rauðavatni veit alveg hvað hún er að gera meðan bleessaður kötturinn fylgir bara eðli sínu og er alveg ómeðvitaður um það.
Ég legg til að herskáir fuglavinir rói sig niður á vorin og leyfi náttúrunni bara að hafa sinn gang. Hættiði þessu rugli.
Hér er frétt af Vísi.is um starfsmenn borgarinnar sem flokka sig líklegast ekki sem kattarfólk
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.