Hvað ef þú ættir fullt, fullt af peningum en mættir ekki velja þér kærasta, kaupa húsgögn og bíl eða tala við þann sálfræðing sem þig langaði til svo fátt eitt sé nefnt?
Þetta er veruleikinn hennar Britney okkar Spears og hefur verið síðustu 12 árin.
Eins og þið vitið kannski er ég mikil áhugamanneskja um Britney en síðustu vikurnar hefur áhuginn náð hámarki og þetta á við um marga aðra. Hún komst meira að segja í fréttirnar á RÚV og BBC og þá er nú mikið sagt.
Þegar ég skrifaði þessa grein gerði ég mér ekki alveg fulla grein fyrir því hversu hrikalegum málum hún er í blessunin en í stuttu máli má segja að henni hafi árum saman verið haldið eins og sirkusapa í búri og það er enginn annar en pabbi hennar, og lögfræðingar á hans vegum, sem sjá til þess að Britney geri ekki neitt sem þeir skipta sér ekki af, – fyrir utan kannski að pósta á Instagram, þó það sé ekki einu sinni víst…
Sumir halda því nefnilega fram að samfélagsmiðlum hennar sé stýrt í þeim tilgangi að sýna fram á hvað hún sé veik. Ef maður skrollar langt niður fídið hennar þá gæti það mögulega verið því það er áberandi þema í gangi: Myndir af blómum, kvót og svo myndir af tjúnaðri Britney að pósa og dansa á víxl, allt með nokkuð áberandi jöfnum tímasetningum. Virkar frekar planað.
Fyrirkomulag sem yfirleitt er notað á fólk með elliglöp og alzheimers
Eins og ég skrifaði um í þessum pósti eru núna komin 12 ár frá því Britney var svipt sjálfræði á þeim forsendum að hún væri ekki nógu andlega heil til að geta séð um sig sjálf. Hvorki fjármál né persónuleg mál. Hún fór í forræðismál sem henni tókst ekki að vinna svo í dag hefur hún 30% forsjá með strákunum sínum á móti pabba þeirra Kevin Federline.
En hvað felst í þessari sjálfræðissviptingu?
Mig hefði aldrei grunað að þetta væri svona sturlað. Svo bara fátt eitt sé nefnt má Britney ekki keyra bíl, hún má ekki gifta sig, verða ólétt, eiga ósamþykktan kærasta, kaupa sér húsgögn, eyða peningunum sínum í föt eða annað. Hún má heldur ekki tala opinberlega um þetta svokallaða „conservatorship“ sem hún er undir.
Fyrir það konsept er ekki til nein almenninleg íslensk þýðing en í stuttu máli er þetta lagalegt fyrirkomulag sem sviptir hana sjálfræði og hindrar hana frá því að taka stórar sem smávægilegar ákvarðanir um eigið líf.
Þessu fyrirkomulagi hefur stundum verið komið á fyrir aldrað fólk sem hefur alveg tapað áttum. Fólk með alzheimers og þ.h. Semsagt einstaklingar sem eru mjög illa áttaðir og gætu aldrei unnið, – annað en Britney sem hefur unnið á fullu síðustu ár og meira að segja gefið út plötu og lánsað snyrtivörum og ilmvötnum.
Af hverju ekki Kanye líka?
Fyrir mér og öðrum aðdáendum Britney virðist blasa við að pabbi hennar er að misnota hana gróflega. Hann virðist hafa haldið henni gangandi á lyfjum í þeim tilgangi að láta hana afla fólki tekna og það á ansi ógeðfelldan hátt.
Það er reyndar flestum ljóst að söngkonan býr ekki við góða geðheilsu en Britney er ekki eini tónlistarmaðurinn eða stórstjarnan sem hefur glímt við storma og lægðir í kollinum á sér og tekist á við erfitt sálarlíf. Þau eru nefnilega ansi mörg.
Til dæmis er Kanye West, sem hefur alltaf verið mjög opinskár með bipolar sjúkdóminn sinn, búinn að vera í blússandi maníu í sumar – forsetaframboð og læti, – en það hefur þó enginn svipt hann sjálfræðinu. Það hefur ekki komið til tals.
Hér er listi yfir frægt fólk sem hefur verið opið með geðraskanir sínar.
Stjórnunarofbeldi og „gaslighting“ á háu stigi
Það sem mér finnst blasa við er að pabbi hennar beitir hana stjórnunarofbeldi á mjög háu stigi og mér finnst ömurlegt að horfa á það í beinni. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það er búið að „gasa“ hana mikið.
Það er vitað að pabbinn er alkóhólisti og það er ekki endilega gefið að honum sé aðallega annt um hennar hagsmuni, þrátt fyrir að vera pabbi hennar. Hann er svo ruglaður að hann réðist meira að segja á þrettán ára son Britney fyrir ekki svo löngu og þeir synirnir og Kevin, pabbi þeirra, eru komnir með nálgunarbann á afann. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er fyrir nokkra móður að vera í þessari stöðu.
Sjá nánar um stjórnunarofbeldi.
Málið verður tekið fyrir aftur á næsta ári
Snemma síðasta ágúst óskaði söngkonan formlega eftir því að pabbi hennar hefði ekki lengur yfirráð yfir öllum hennar málum. Þetta gekk ekki eftir svo Jamie Spears verður áfram við stjórnvöllin yfir fjármálum hennar til 1. feb nk en sú sem hefur umsjón með hennar persónulegu málum er Judy Montgomery sem hefur lengi sérhæft sig í þessum „conservatorship“ efnum. Britney óskaði líka eftir því að næsta áheyrn í rétti yrði opin almenningi en hingað til hefur þetta allt saman farið fram á bak við luktar dyr.
Liðsmenn #freebritney hreyfingarinnar standa að baki því að styðja dömuna en í ágúst söfnuðust háar upphæðir sem aðdáendur Britney hafa varið í lögfræðikostnað henni til stuðnings.
Kúgun feðraveldisins – Bókstaflega
Nú er það vitað að stórstjörnur á borð við Britney Spears eru allar með heilan her af fólki sem hagnast á því eða hefur lífsviðurværi sitt af því að vinna fyrir þær. Við erum að tala um allt frá læknum (sem eru á vaktinni 24/7) og lögmönnum, – yfir í hundapassara og menn sem þrífa sundlaugar. Það eru fleiri hundruð manna og kvenna sem hafa hag af því að „sirkusdýrið“ haldi áfram og þá kannski aðallega pabbi hennar sem greiddi sér tæplega 18 milljónir að launum í fyrra fyrir það að sjá um fjármálin hennar. Alllt eðlilegt þar?
Það er reyndar alveg á hreinu að Britney, líkt og aðrar stórstjörnur, mun áfram hafa sérfræðinga sér til aðstoðar bæði til að huga að peningamálum hennar og heilsu en þess væri sannarlega óskandi að þessu fyrirkomulagi með forsjá föður hennar verði komið af. Fyrir mér er þetta allt saman ákveðin birtingarmynd kúgunar feðraveldisins (bókstaflega) og misnotkun á fólki sem glímir við andlega sjúkdóma. Sigur Britney í þessu máli yrði því táknrænn sigur fyrir fullt af öðru fólki. Vonum það besta!!
#freebritney !
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.