Þegar ég skoðaði tískusýningu HM á tískuvikunni sem er að líða í París fannst mér skemmtilegt að sjá hversu öflug áhrif tvær franskar 60’s kynbombur eru að hafa á stílinn í dag.
Þetta eru þær Brigitte Bardot sem fæddist árið 1934 og Jane Birkin sem fæddist 1946.
Áhrifin voru mjög áberandi hjá HM en reyndar hjá mörgum öðrum tískuhúsum líka. Rachel Zoe stílisti birti svo mynd af Jane Birkin á Instagram í gær þar sem hún sagði Jane Birkin vera sinn helsta innblástur í dag.
Há stígvél, stórir jakkar, stuttir kjólar, þunnar sokkabuxur, víðar peysur, úfið hár og þykkur eyeliner í bland við náttúrulega förðun er meðal þess sem einkennir lúkkið sem kemur í búðirnar næsta haust en þessar tvær bombur voru einmitt líka frægar fyrir blygðunarleysi í bland við kúlheit.
Jane Birkin varð reyndar einna frægust fyrir að vera kærasta franska tónlistarmannsins Serge Gainsbourg en þau tvö voru gjarna mynduð saman, hún þá oftar en ekki mjög léttklædd og hann reykjandi. Báðar þessar konur eru lifandi og við ágæta heilsu í dag en sagt er að Jane hafi aldrei almenninlega jafnað sig eftir fráfall Serge Gainsbourg meðan Brigitte berst fyrir bættri meðferð dýra.
Skemmtileg og heillandi frönsk töffara menning og dásamlega flottar dömur. Þessum straumum verður tekið fagnandi í haust enda íslenskar konur töffarar upp til hópa.
_______________________________________________________________________
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.