Í hjarta Reykjavíkur, í gulu húsi rétt við Reykjavíkurflugvöll, ríkir mikil gleði því bílskúrinn við gula húsið geymir ekki vetrardekk og verkfæri heldur hefur honum verið breytt í spennandi “belgískan markað”.
Í skúrnum, á pallinum og á grasinu eru seldar vörur sem keyptar hafa verið beint af sveitabýlsmörkuðum í Belgíu og þarna má finna glás af mið-evrópskum húsgögnum, fatnað, skart, glervöru og postulíni. Þetta er mjög góður staður til að finna allt það sem fólki hefur aldrei dottið í hug að það langaði í en þarna er líka hægt að gera reyfarakaup…
Þegar ég mætti á svæðið ríkti góð stemmning í Boutique Papillon, en það er nafn markaðarins. Hressar konur mættar að versla og engin fór tómhent heim. Ein var glöð með töff stól undir hendi og poka með fatnaði, önnur skoðaði borð, skápa og fallega spegla á meðan sumar skelltu sér á litríka vasa og töff bollastell: “svona til að gera sér dagamun og bjóða vinkonum i kaffiboð” eins og ein daman sagði glaðlega og að núna myndi hún þora og tíma að nota þessa fallegu bolla -því þeir væru alls ekki dýrir. Jú. Ef einhverjir myndu brotna í kaffiboðinu þá kæmi hún bara aftur og verslaði sér fleiri.
Dömurnar mátuðu litríka kjóla, yfirhafnir og fallega pelsa á ótrúlegu verði 10.000-18.000 kr. Tvær spenntar vinkonur gátu ekki gert upp á milli vintage veskja og mátuðu trefla, silkislæður, húfur og hanska sem fengu að fljóta með í kaupunum á mjög sanngjörnu verði.
Fríða Jónsdóttir er eigandi Boutique Papillon en hún er búsett í Belgíu og á íslandi og fer í hverri viku á markaði um sveitir Belgíu til að versla. Nýjar vörur berast því mjög reglulega til íslands og eitthvað af þeim vörum eru seldar til verslana eins og Frúin í Hamborg á Akureyri og Sveitabúðina Sóley í flóanum.
Einnig eru seldir frábærir munir á vegum ABC hjálparstarfs – þar eru litríkar handsaumaðar töskur, viskustykki, ofnhanskar, pils og fleira fallegt. Ég hinsvegar gat ekki staðist litríku skógardýrin fyrir litla kútinn minn; keypti fíla og gíraffa og styrkti um leið gott málefni.
Ágóðinn af sölu á þessum handgerðu munum rennur svo óskert til kvenna í afríku sem sauma vörurnar en launin gera þeim kleift að sjá fyrir börnum sínum í stað þess að stunda götuvændi.
Markaðurinn Boutique Papillon er á Hörpugötu 10, 101 Reykjavik.
Opið er á miðvikudögum og fimmtudögum frá 14:00 -18:00.
Boutique Papillion er á facebook http://www.facebook.com/pages/Boutique-Papillon/136578806375576?ref=ts
myndir: Díana Bjarna
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.