Stephanie Star er einkar hress dönsk raunveruleikaþáttastjarna. Hún hefur í gegnum árin haslað sér völl sem aðal bótoxdrottning danaveldis en nú er sjomla komin vel yfir fimmtugt. Í ársbyrjun ákvað hún að stíga vel út úr þægindarammanum, slaka á sínu dramatíska skinkulúkki og skilgreina sjálfa sig upp á nýtt, svona eins og gengur og gerist hjá miðaldra fólki.
Að sjálfssögðu gerði hún sjónvarpsþætti um ferlið í samvinnu við DR3 og í hverjum þætti fékk maður að fylgjast með því hvernig „dulargervið“ hrundi smátt og smátt af.
Mamma, vertu bara þú sjálf
Tvítug, gullfalleg og aldeilis óbótoxuð dóttir Stephanie var með henni í öllu ferlinu, svona sem stuðningur og pepp en merkilegt nokk þá var hún alls ekki eins hrifin af hugmyndinni og mamman sem fór líka fleygiferð fegrunaraðgerða forvarnir. Hélt fyrirlestra í framhaldsskólum til að vara menntaskólastelpur við því að leiðast inn á sömu braut og hún sjálf. Í einum fyrirlestrinum gekk hún meira að segja svo langt að lýsa sjálfri sér eins og apa smetti eftir að hafa farið í aaaaðeins of margar varafyllingar. Upplifði sjálfa sig sem algjört frík.
Årets beste bryster 2016
Auðvitað er Stephanie ekki týpan sem lét bara fyllingarefnin duga. Okkar kona var með hárlengingar, akrýlneglur, brúnkusprautuð og máluð í drasl á hverjum degi svo ekki sé minnst á þessi veglegu sílikonfylltu brjóst sem hlutu titilinn Årets beste bryster fyrir nokkrum árum, – og þann titil bar hún STOLT. Mjög stolt.
En eftir að hafa látið rótina vaxa, fjarlægt hárlengingarnar, safnað hári undir höndum (og að neðan) hætt að vaxa á sér efrivörina, lita augabrúnirnar, nota augnhár og taka af sér gervineglurnar var Stephanie samt orðin heldur þunglynd. Hún hafði heldur ekki farið í bótox og fyllingarefni í nokkra mánuði og var því aðeins farin að láta „á sjá“ (djók). Þetta var virkileg andleg þrekraun með tilheyrandi táraflóði og tilvistarkreppu fyrir Stephanie:
„Af hverju er ég að þessu!? Jú ég verð að gera þetta fyrir ungu stelpurnar, þær mega ekki verða svona langt leiddar eins og ég, ég get ekki hagað mér eins og ég sé endalaust 22 ára, hvað er að mér“… og svo framvegis.
Allt gekk vel hjá okkar konu en þegar kom að því að láta fjarlægja púðana úr „årets beste bryster“ runnu tvær grímur á Stephanie. Hún fékk að vita að til að lyfta sirka sjö kílóa brjóstunum og gera þau eðlilegri þá myndu koma ör á brjóstin og í kringum geirvörtunar og það vildi Stephanie alls ekki gera tuttugu ára gömlum verðlaunabrjóstunum sínum, – svo hún bakkaði út úr því verkefni en hélt sínu striki með allt hitt.
Eníhú. Eftir því sem aukabúnaðurinn minnkaði á okkar konu þá varð hún þunglyndari og þunglyndari þannig að dóttur hennar var eiginlega hætt að lítast á blikuna:
„Mamma, til hvers ertu eigilega að þessu. Ég er búin að alast upp með þér alla ævi og þetta ert bara ekki þú. Þú ert bara frábær skinka og sílikon gella og það er bara allt í lagi. Vertu bara þú sjálf,“ sagði dóttir hennar sem er af umburðarlyndu kynslóðinni.
Nei, gamla ekki til í það. Ekki strax að minnsta kosti. Hún þurfti að halda áfram með sína miðaldurskrísu en… eins og allir vita þá þola konur bara svo og svo mikla þjáningu þannig að eftir sirka 500 hvítvínsglös útþynnt með tilvistarkrepputárum, ákvað ómáluð, naglalaus, ólituð og hrukkótt bótoxdrottning danaveldis að nú væri loks komið nóg.
Leiðangrinum og sjálfskönnuninni var lokið. Stephanie ákvað að ætta að klæða sig eins og strippari og reyna að verða aðeins meira klassí. Fara einhvern milliveg í þessu. Hún kynntist góðum stílista sem hjálpaði henni meðal annars að velja ný föt, sem voru þó ekki alveg úr karakter, mála sig betur og fá sér aðeins fallegri strípur.
Sem betur fer tókst sú aðgerð virkilega vel og þó að fyllingarefnin sitji alveg föst í andlitinu á okkar konu þá lítur hún nú töluvert betur út eftir að hafa slakað aðeins á með skinkulúkkið eins og sést á myndunum. Eða það finnst mér að minnsta kosti.
Ef þú ert svo heppin að skilja þetta íðilfagra tungumál, dönsku, þá getur þú horft á þessa fyndnu og dramatísku þætti á DR3 sem er hægt að sækja í flest snjallsjónvörp og auðvitað sjá á netinu. Ég mæli með þeim. Þetta eru góðar pælingar og mjög gott auðvitað að sjá hvað Stephanie varð ánægð eftir að hafa gengið í gegn um þessa andlegu þrekraun. Hún endurskapaði sjálfa sig án þess að gefa of mikinn afslátt af því hver hún er og hvernig henni líður best með sjálfa sig.
Það er allt í lagi að vera skinka, svo lengi sem þú ert stolt skinka og sátt í eigin skinni, (hversu bótoxað sem það nú er).
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.