Það er fátt uppbyggilegra fyrir foreldra en að eiga virkilega góða gæðastund með börnunum þar sem bæði upplifa eitthvað nýtt og spennandi og auðga andann um leið.
Þessa helgina er af nægu að taka í menningarmálum barna og ótal margt skemmtilegt hægt að gera, svona til að fagna því að nú hefur sumarið blásið tekið völdin í landinu okkar fagra.
Nokkur leikrit eru sýnd á fjölum leikhúsanna og Barnamenningarhátíð lýkur á sunnudag. Þar er af nægri skemmtun og fróðleik að taka. Til dæmis geta krakkarnir lært breakdans, brúðugerð, farið í Legosmiðju, lært um indíána og hort á stuttmyndir í Melabúðinni, svo fátt eitt sé nefnt.
Í leikhúsunum er hægt að sjá Galdrakarlinn í Oz, Góa og Baunagrasið og hinn ágæta og ofur lygasjúka Munchausen barón hjá Gaflaraleikhúsinu en af þeirri sýningu fara sérlega fögur orð. Gói og Baunagrasið hefur jafnframt fengið afar góða dóma og eru síðustu forvöð að sjá þá sýningu.
Laugardalslaugin opnaði aftur eftir endurbætur um síðustu helgi og þar er nú kraftmeiri rennibraut og flottari aðstaða fyrir bæði börn og foreldra. Ef veðrið er gott er fátt sumarlegra en að skella sér í laugina og busla eða slaka á með krökkunum.
Einnig verður mikið um að vera í Myndlistarskóla Reykjavíkur á Sunnudag en þá verður opið hús og hægt að taka þátt í margskonar smiðjum, bæði fyrir börn og fullorðna.
Gróttudagurinn verður á morgun en þá er hægt að skella sér út í Gróttuvita á Seltjarnarnesi og kaupa kaffi og vöfflu fyrir 500 kr og einnig er hægt að fræðast um vitann sem er 65 ára í ár. Gott er að hafa með fötu og týna skeljar sem síðan er hægt að föndra eitthvað fallegt úr.
Hvað sem verður fyrir valinu er um að gera að njóta helgarinnar með krökkunum og upplifa einhvern af þessum skemmtilegu viðburðum á höfuðborgarsvæðinu.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.