Jónsdóttir & co náði athygli minni þegar ég sá fyrst sætu samfellurnar frá þeim með áletruðum fæðingardegi barnsins. Mér fannst þetta stórsniðug og vel útfærð hugmynd og ákvað að forvitnast aðeins um þessar vörur.
Ég náði tali af Ragnhildi Önnu Jónsdóttur sem var í óðaönn að undirbúa Ljúflingsverzlunina (pop-up verslun) sem hefst í kvöld og bað hana að segja mér frá Jónsdóttir og co.
Ég hef alla tíð verið búðarkona, verið í verslunarrekstri og haft unun af því. Þegar ég hætti verslunarrekstri gafst mér tækifæri til að prufa eitthvað nýtt og þá varð Jónsdóttir og co. til.
Segja má að Jónsdóttir & co sé tvískipt, annars vegar þar sem ég vinn eitt og annað sem mér finnst fallegt og gaman að s.s. ungbarnasamfellur úr lífrænni bómull með Fair Trade vottun og smekki í gjafapokum og það nýjasta er gjafapakkning með Stubb (koddaver og bókin um Stubb). Síðan flyt ég inn m.a. frá Írlandi yndislega gjafavörulínu Avoca þar sem áherslan er á ilmkerti, sápur með ljúfum angan, matreiðslubækur og teppi og eitt og annað. Avoca hefur ekki verið áður í boði á Íslandi og því finnst mér ákaflega gaman að bjóða uppá þessa vöru.
Ljúflingsverzlun (pop up) varð til þegar ég kynntist Heiði Reynidsóttur í Íslenzka Pappírsfélaginu og við ákváðum að gera eitthvað skemmtilegt saman. Þegar við leggjum krafta okkar saman með ólíkum en skemmtilegum vörum verður úr yndisleg karnival stemming sem minnir á lítið kaupfélag þar sem allt er í boði. Við munum einmitt endurtaka leikinn saman með Ljúflingsverzlunina í kvöld og halda svo áfram á föstudag og laugardag en á laugardag er einmitt langur laugardagur og allar verslanir opnar til 17:00.
Yfirskrift kvöldsins er “Ljúfur kvöldhittingur á Laugavegi”. Opið verður milli 18:00 og 21:00 þar sem verslanir fagna komu vorsins og bjóða uppá góða stemmingu og minna á mikilvægi Laugavegarins í heild sem verslunargötu.
Í samstarfi við Borð fyrir tvo að Laugavegi 97 (erum staðsettar þar) ásamt fleiri góðum verslunum í nágrenninu. Hugmyndin er að hafa skemmtilega stemmingu, léttar veitingar og spennandi tilboð og minna jafnframt á hversu gaman getur verið að heimsækja miðbæinn.
Mér hefur fundist sárt að sjá hvernig þessi efsti hluti Laugavegarins hefur verið að þróast. Því kom upp sú hugmynd að minna á þessa staðsetningu enda má á þessu svæði finna afar sterkar verslanir, Borð fyrir tvo, Sigurbogann, Lífstykkjabúðina, Dún og fiður, Atson og Couture þær verða flestar með opið í kvöld.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.