Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að eiga börn þó að við elskum þau auðvitað út af lífinu.
Þessar litlu verur geta verið hrikalegir harðstjórar sem stressa foreldra sína upp úr öllu valdi við ósköp hversdagslegar athafnir. Hver kannast til dæmis ekki við að hafa eytt fleiri klukkutímum í að fá barn til að sofna? Eða sektarkenndina sem fylgir því að nenna bara ómögulega að horfa á Barbie og sjö dansandi prinsessur á kósýkvöldi, eða hálftímann sem fer í að sannfæra fjögurra ára um að það gangi ekki upp að mæta í Öskubuskukjól eða Bósa ljósár galla í leikskólann, nú eða þegar drengurinn er búin að öskra og hlaupa í hringi með vini sínum án afláts í tvo tíma í skemmtigarðinum meðan þú situr á bekk með símann þinn og starir út í tómið með öðrum foreldrum. Það er bara satt – þetta er ekki alltaf auðvelt.
Eftirfarandi listi er raunveruleg samantekt úr rannsókn þar sem fjöldi foreldra var spurður að því hvað þeim þætti erfiðast við foreldrahlutverkið en listinn var svo birtur hjá Daily Mail. Eins og sjá má geta daglegar athafnir sannarlega tekið á.
TOPP 20 erfiðustu aðstæðurnar fyrir foreldra
1. Að kaupa inn fyrir vikuna í Bónus og hafa barnið með
2. Að koma börnum í háttinn
3. Langar ökuferðir
4. Að fá börnin til að borða matinn sinn
5. Að fara í heimsókn til fólks sem á engin börn sjálft
6. Að sitja föst í bíl í umferðaröngþveiti
7. Matartíminn
8. Að hafa ofan af fyrir börnum í skólafríi
9. Að koma börnum í og út úr bílnum
10. Að klæða þau á morgnanna
11. Að baða
12. Skemmtigarðurinn í Smáralind og álíka uppákomur
13. Að setja í töskurnar áður en farið er í frí
14. Tannburstun
15. Að kaupa ný föt
16. Að fá þau til að smakka eitthvað nýtt
17. Barnaafmæli
18. Veikindi
19. Út að borða
20. Sumarfrí
Við gætum alveg bætt einhverju við þennan lista eins og til dæmis þegar teikning númer 986 það árið kemur upp úr töskunni sem “sérstök gjöf til þín” (hvað á maður að gera?) eða þegar þau hrópa á þig að það hafi hellst niður á sófann en hafa samt ekki fyrir því að standa upp, þegar þau heimta að fá að blása á sér hárið sjálf (þriggja og hálfs árs) eða fara að gráta yfir því að eiga ekki iPhone (eins og allir hiiiinirrrr – einmitt). Þetta er ekki auðvelt. Það er á hreinu.
En við gætum samt aldrei verið án þeirra! (ekki lengi í einu amk).
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.