Ný dúkka hefur litið dagsins ljós á dótamarkaðnum eftir að faðir nokkur komst að því að Barbie og Bratz geta haft slæm áhrif á líkamsímynd ungra stúlkna.
Markmiðið með dúkkunni, sem fengið hefur nafnið Lotta, er að beina athygli ungra stúlkna frá því að hegða sér og leika eins og unglingar eða fullorðnar konur sem mála sig og eru með mjaðmir, rass og brjóst.
Það er frumkvöðullin Ian Harkin, 38 ára lundúnabúi, sem kom með dúkkuna á markað í ágúst en síðan hefur hún unnið til átta verðlauna í bransanum.
Dúkkan fór í framleiðslu eftir að Ian lét gera rannsókn þar sem foreldrar voru fengnir í fókushópa ásamt næringarfræðingum og barnasálfræðingum.
Lotta, eða Lottie, er í laginu eins og venjuleg níu ára stelpa. Hún er brjóstalaus og aðeins minni en aðrar vinsælar dúkkur á borð við Barbie.
Hann segist hafa fengið áhuga á að búa til dúkkuna eftir að næringarfræðingurinn Dr. Margaret Ashwell hélt erindi um hvernig dúkkur geta haft neikvæð áhrif á líkamsímynd ungra stúlkna. Hann segir jafnframt að í viðtölum við foreldra hafi komið fram að þeim finnist dætur sínar eldast of hratt.
Fötin hennar Lottu endurspegla áhugamál hennar sem eru m.a. ballett, hestar og útivist. Hún fer ekki að djamma á næturklúbbum eða á rúntinn með strákum, henni finnst hinsvegar gaman að fara út að leika sér og nota ímyndunaraflið.
Áður en Lotta litla kom á markað hannaði Ian dúkkur að frummynd Kötu og Vilhjálms Bretaprins í brúðarklæðum. Hann var í eitt og hálft ár að hanna Lottu en planið er að koma með sex dúkkur til viðbótar á markaðinn í sömu línu og Lotta.
Lotta kostar um 3000 íkr og hefur verið hampað af frægum mæðrum á borð við JK Rowling og Amöndu Holden. Hér er heimasíða Lottu flottu.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.