Það hlaut að koma að því að dagurinn rynni upp. Dagurinn þar sem litla stelpan mín færi að pæla í þyngdinni. Hún er 9 ára. Það er árið 2014. Svona er þetta bara.
Jafnvel þó ég hafi sussað á fólk í kringum mig þegar það ætlaði að fara að tala um eigin þyngd í hennar viðurvist, jafnvel þó ég hafi aldrei sagt orð um hennar holdafar, þá kom spurningin þar sem hún stóð fyrir framan spegilill og horfði á sjálfa sig á hlið:
“Mamma, er ég með mikla fitu?”
Ég stóð upp frá vinnunni og gekk til hennar. Faðmaði hana og sagði nei, þú ert sko bara venjuleg og alls ekki með mikla fitu, þú ert snilld og fullkomin – En við getum samt alveg mælt það ef þú vilt… Svo útskýrði ég fyrir henni BMI kjörþyngdarpælinguna. Aldur, kyn, hæð. Þetta fannst henni frábært.
Við fórum á netið og fundum þessa síðu sem er haldið úti af breska ríkinu, einskonar Lýðheilsustofa þeirra Breta. Svo sóttum við málband og fundum út hæðina. Því næst stökk hún á vigt (í fyrsta sinn hér heima) og svo slógum við inn tölurnar.
Barnið er í kjörþyngd, bara akkúrat í miðjunni. Gæti ekki verið betra.
BMI skalinn rokkar á sirka 8 kílóum. 4 upp eða 4 niður. Hún bað mig að slá inn vinkonu sína, hæð hennar og þyngd. Ég gerði það. Vinkonan er líka í kjörþyngd þó hún sé aðeins grennri. Svo þurfti ég að kanna mig sjálfa. Jú, mamma er líka í kjörþyngd. Ekki of þung, ekki of létt. Allir sáttir. Málið dautt.
Ég útskýrði að hún ætti alltaf að reyna ekki að vera fyrir ofan og ekki fyrir neðan þessi kjörþyndarmörk. Ekkert flókið. Bara vottað af heilbrigðiskerfinu eins og útivistartími barna er settur í barnaverndnarlög.
ATH: Ef hún skyldi þó einn daginn fara að stunda kraftlyftingar, júdó eða annað sem byggir upp mikinn vöðvamassa þá á BMI skalinn ekki lengur við því hann tekur mið af ‘venjulegu’ fólki og ef þetta breytist þá breytum við auðvitað viðmiðinu.
Barna-BMI á íslensku takk
Næsta skref var að hún skrifaði niður 10 matvörur sem eru hollar og henni finnst góðar, blaðið var fest á ísskápinn og ákveðið að eitthvað af þessu ætti alltaf að vera til.
Málið hefur ekki verið rætt síðan og ég vona að það komi ekki aftur upp. Það er svo óþægileg tilfinning fyrir mömmur að horfa upp á litlu krúttin okkar, alheilbrigð og fín, velta holdafarinu fyrir sér ekki einu sinni komin á kynþroskaskeið: “Ég virka svo feitur í þessum pollagalla”. Maður fórnar höndum.
En svona er þetta óumflýjanlegt á öld hégómans. Við erum gegnsósa af þessu á alla kanta, hvort sem er í Biggest Looser herferðum sjónvarpsins eða þegar mamman eða pabbinn kvarta undan því að buxurnar séu orðnar of þröngar og nú þurfi að ganga af sér spikið og hætta að borða pizzur. Við okkur blasir daglegt áreiti þar sem fjallað er um átröskun, offitu, heilsueflingu, hreyfingu og útlitið á einn eða annan hátt. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og gera ekkert nema endurspegla okkar hegðun og framkomu og önnur áhrif sem þau sjá og upplifa í kringum sig.
Ég er mjög fegin að hafa fundið þennan viðmiðunarskala á netinu og skora um leið á Lýðheilsustofu hér á landi að setja upp sambærilegan BMI skala barna á íslensku.
Það er sannarlega þörf á svona einföldun í okkar flóknu tilveru og þá á ég bæði við flókna tilveru barna og fullorðinna.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.