Brjóstagjöf er dýrmæt bæði fyrir barn og móður og hefur mikið verið talað um hana í fjölmiðlum enda skoðun fólks mjög misjöfn á því hvort að það sé eðlilegt að gefa barni brjóst á almannafæri eða ekki.
Það er mjög misjafnt hvað konur kjósa að gera en flestar prófa þó að gefa barni sínu brjóst, sumar hafa börnin sín á brjósti í langan tíma á meðan að aðrar hafa þau styttri tíma og eru margar ástæður fyrir því.
Í Tucson í Bandaríkjunum býr kona sem heitir Micha McNerney og er hún bæði móðir og ljósmyndari.
Micha hefur starfað sem ljósmyndari í rúmlega 10 ár og var að enda við að gefa út bókina Holding Space en í henni má finna fullt af myndum af konum gefa brjóst ásamt ýmsum fróðleik um brjóstagjöf.
Ég var svo heppin að ná sambandi við Michu McNerney í gegnum netið og fékk hana til að svara nokkrum spurningum fyrir mig varðandi bókina. Hún gaf mér leyfi til að nota myndirnar sínar í þessa grein en ég ætla einnig að kaupa bókina hennar því að mér finnst bókin alveg hreint dásamleg.
Holding Space er virkilega vel unnin bók en Micha byrjaði að vinna í henni í Janúar 2012 og hefur eytt mest öllum sínum frítíma síðan þá í að klára hana en þess má geta að hún eignaðist barn á þeim tíma þannig að hún hefur unnið mjög hörðum höndum í að gefa þessa bók út.
Hún segir hugmyndina að bókinni hafa orðið til þegar að hún var með eldri son sinn á brjósti en henni fannst þessi upplifun of dýrmæt til þess að eiga hana ekki til á myndum.
Hún var heppin með sjálfboðaliða í bókina því margar voru opnar fyrir þessu verkefni og Micha þurfti ekki að ferðast langt að heiman til að ná þessum frábæru myndum. Henni finnst einmitt svo skemmtilegt hvað myndirnar eru náttúrulegar og ekki uppstilltar og margar af konunum í bókinni svo berskjaldaðar á meðan á myndatökunni stóð.
Meiri neikvæðni því eldra sem barnið er
Einnig segir hún að það sé mjög misjafnt hvað hún upplifir með jákvæðni og neikvæðni varðandi brjóstagjöf á almannafæri og finnst aldur barnsins hafa mikið með það að gera en almennt finnst henni fólk vera farið að vera mikið opnara gagnvart brjóstagjöf.
Upplifun hennar á að gefa þriggja ára syni sínum brjóst á almenningstöðum sé allt önnur en að gefa ungabarni sínu brjóst og það virðist sem að því eldra sem barnið sé, því neikvæðara verður fólk gagnvart brjóstagjöfinni á almannafæri.
Þegar ég spurði hana um það hvað væri það fyrsta sem að hún hugsaði þegar að hún heyrði orðið Ísland komu eldfjöll, hverir og jarðhiti henni strax efst í huga. Sjálf hefur hún ekki komið til Íslands en hún myndi nýta tækifærið og koma ef að tækifæri myndi gefast.
Vonandi mun þessi jákvæðni varðandi brjóstagjöf á almenningsfæri halda áfram að aukast með tímanum.
Heimasíðan hennar er hér og Facebook síðan hennar hér.
Bjarney Vigdís er mikil áhugamanneskja um allt sem viðkemur heilsu, uppeldi, eldamennsku, tísku, förðun, handavinnu, fegrun heimilisins og öðru pjatti. Hún er menntaður förðunarfræðingur og er jafnframt framúrskarandi húsfreyja sem heldur einnig úti sinu eigin bloggi. Hún býr á vesturlandi í litlum bæ ásamt manni sínum og 6 börnum.