Blandaðar fjölskyldur eru líklegast fleiri á Íslandi en í mörgum öðrum löndum en í hinum vestræna heimi fer þeim fjölgandi með degi hverjum.
Með þessu koma allskonar nýjar áskoranir sem flestir kunna ekki almenninleg skil á en reynsla og rannsóknir sérfræðinga hafa sýnt fram á að það er margt sem borgar sig að gera og annað ekki þegar komið er í nýtt samband, með manni sem á börn fyrir.
Eftirfarandi er listi með 10 hlutum sem stjúpmömmur ættu aldrei að segja við börn nýja makans. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Þá sérstaklega ef sálin er ung og ómótuð.
~
1. “Allt í lagi, kallaðu mig bara mömmu”
Þú ert ekki mamma þeirra og verður það aldrei. Það er nógu flókið fyrir krakka að búa á tveimur stöðum og eiga tvö sett af öllu. Tvær mömmur eða tveir pabbar eru ekki eitthvað sem einfaldar málið. Láttu barnið bara kalla þig með skírnarnafni þínu. Það dugar. Gefðu svo sambandi ykkar tíma til að þróast og þroskast. Rannsóknir hafa sýnt að það tekur stjúpfjölskyldur að minnsta kosti þrjú ár að ‘settla’ og fyrsta árið er alltaf erfiðast.
2. “Ekki málið, gerðu bara það sem þú vilt.”
Börn þurfa mörk í næstum því jafn miklu magni og þau þurfa ást og kærleika. Ef þú setur þeim engar reglur þá líður þeim ekki vel. Lærðu að banna þeim ákveðna hegðun og byrjaðu setningarnar á “Í þessu húsi gerum við…” svo að tíminn sem þið eigið saman fari ekki allur í leiðinlega ‘samninga’ um smáatriði.
Og sama hversu góður vinur stjúpbarna þinna þú ert þá skaltu alltaf halda þig við framkomu foreldris.
Sýndu gott fordæmi í stað þess að reyna að vera með þeim í ‘klíku’. Sérstaklega ef um unglinga er að ræða því mjög líklega finnst þeim þú sérstaklega ‘ókúl’ eftir stuttan tíma.
3. “Ég skal gera þetta,” “Ég skal skutla þér,” “Ég þríf þetta,” “Ekki hugsa um mig,” og svo framvegis.
Aldrei láta stjúpbörnin þín (eða pabba þeirra) breyta þér í týpuna sem enginn á jörðinni þolir: Fórnarlambið!
Fórnarlömb láta fólki líða illa. Manni finnst maður krípí og vondur nálægt fórnarlambi og það finnst engum gaman að líða þannig. Sérstaklega ekki stjúpbörnum þínum þar sem þau eru vanalega ekki lengi að bregðast við. Þá er nú betra að vera bara vonda stjúpmamman.
4. “Af hverju þessi fýlusvipur”
Stjúpbörn eru flest að fara í gegnum það sama. Þau syrgja skilnað foreldra sinna og þú mátt til með að leyfa þeim það þó þau séu líklegri til að syrgja enn meira þegar þú ert nálægt. Þú ert jú í raun sönnun þess að mamma þeirra og pabbi eru ekki að fara að vera saman aftur. Ekki sýna þeim athygli samt þegar þau eru að syrgja. Leyfðu pabba bara að sjá um þetta. Þau komast fljótlega yfir þetta, enda eru þau krakkar.
5. “Við pabbi þinn og ég erum alltaf að …”
Aldrei gefa í skyn að það hafi verið roooosalega gaman hjá þér og pabbanum meðan barnið var í burtu. Þeim finnst þau hvort sem er skilin útundan og því er ekki góð hugmynd að krakkinn fari að sjá ykkur fyrir sér, í hláturskasti með ís á sólskinsdegi og í sleik að kaupa eitthvað Apple tæki í Kringlunni. Barnið er líklegast nógu abbó fyrir.
Þið eigið bara að vera ástúðlegt par í augum barnsins. Góðir vinir sem taka lífinu með ró.
6. “Kennir mamma þín þér að gera svona?”
Aldrei tala illa um þinn fyrrverandi í eyru barnsins og ekki um mömmu þess þó að allt sé enn í háalofti. Rannsóknir hafa sýnt að það er stríðið sem stendur enn eftir skilnað sem særir börnin hvað mest.
Ekki ranghvolfa augunum við hlið hans þegar hann talar við fyrrverandi í símann og troða fingri í kokið. Ekki skrifa henni tölvupóst og ef hún er alltaf að hringja skaltu blokkera númerið hennar. Þið eigið að rífast sem minnst um hana, það er algjört eitur fyrir sambandið ykkar.
7. “Hefurðu alltaf gert þetta?”
Allar fjölskyldur eiga sér einhverjar hefðir sem skipta þær máli. Þannig að ef maðurinn þinn og krakkarnir hans heimta að horfa á Merlin saman, setja majónes á pylsurnar, safna gúmmíteygjum eða hvað sem þér finnst hallærislegt og leiðinlegt… skaltu reyna þitt besta til að halda þér saman.
8. “Herbergið þitt er ógeðslegt!”
Það þarf eitthvað undan að láta og skurðstofustemmningin ætti að vera þar efst á blaði. Ef þetta er komið út í algjöra steypu og krakkarnir byrjaðir að rækta nýjar bakteríutegundir í rykinu á Syrpusafninu þá skaltu fá pabba gamla til að tala við þau og skipuleggja tiltektina. Lífið er óreiða og það verður enn meiri óreiða þegar þú velur að vera með manni sem á börn fyrir. En mundu: Það er mikið skemmtilegra en að vera með manni sem flossar tennurnar á kettinum sínum.
9. “Við krakkarnir fórum í …”
Ef þú átt börn sjálf sem búa hjá ykkur er mjög líklegt að krökkunum hans finnist þau vera að fara á mis við allt fjörið sem þið upplifið. Ef þið talið um veitingahúsa og bíóferðir er líklegt að þeim finnist eins og hin börnin séu að fá meira hjá ykkur. Hafðu það alltaf á hreinu að það eru engin uppáhalds börn og að öllu sé deilt jafnt á milli barnanna.
10. “Við ræktum ekki peninga á trjánum.”
Samviskubitið er drifkraftur pabbans númer eitt (og örugglega númer tvö og þrjú líka). Pabbi er með samviskubit, fyrrverandi er brjáluð, stríðið stendur hátt og peningar eru aðal vopnið. Reyndu að blanda þér ekki í þetta stríð, finndu út hvað þið eigið og ætlið að nota af peningum í ykkar rekstur og skemmtun og aldrei ræða peningamál fyrir framan krakkana.
Að þessu sögðu óskum við ykkur stjúpum góðs gengis. Mundu að þú ert ekki ein – það er fullt, fullt af konum, akkúrat núna, að glíma við það sama og þú.
(Grein þessi er þýdd og staðfærð frá Opruh Winfrey)
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.