Ég hef mikinn áhuga á allri hönnun og er einnig mjög hrifin af því að finna fallegan húsbúnað eftir óhefðbundnum leiðum og þá sérstaklega á flóamörkuðum.
Það sem einhver einn álítur mesta drasl og vill losa sig við getur verið mesta gersemi í augum annars. Þannig er það að oft má finna litla og stóra fjársjóði á flóamörkuðum, sérstaklega ef um er að ræða klassískan húsbúnað sem er líka alltaf í tísku. Það nægir að fletta hönnunarblöðum til að sjá merki þess að klassíkin er eilíf og falleg hönnun stenst sannarlega tímans tönn.
Það vildi svo til að ég kíkti á flóamarkað á Akureyri með Gullu vinkonu minni (í MáMíMó) og hún kom auga á þetta fallega stofuborð. Það var ekki ætlunin að fjárfesta í neinu stofuborði fyrir norðan, en samkvæmt ráðleggingum Gullu varð úr að ég keypti gripinn.
Ég var alls ekki viss með þetta borð í fyrstu enda fannst það í miklum ruslabing þar sem því hafði verið potað niður eins og hverju öðru drasli. Gulla benti mér á hvað hönnunin væri falleg og einföld, massívur viðarfótur með léttu reyklituðu gleri – algert raritet svo ég lét sannfærast.
Borðið var auðvitað alltof stórt til að komast í bílinn en Viggó hjá Landflutningum sá um að flytja það fyrir mig í bæinn og nú prýðir það stofuna heima og er hið mesta djásn sem ég fékk á frábæru verði, langt undir því sem sett er á fjöldaframleiðslu í Ikea (með fullri virðingu fyrir henni).
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.