Í dag er bóndadagurinn og jafnframt fyrsti dagur Þorra.
Allskonar hefðir hafa í gegnum tíðina verið viðhafðar á þessum degi þó að í dag sé hann nokkuð litlaus miðað við það sem áður var gert, ef undanskilin eru þorrablótin sem eru jú vanalega heldur skrautleg.
Um fyrsta dag Þorra segir í bréfi Jóns Halldórssonar í Hítardal (f. 1665) til Árna Magnússonar frá árinu 1728, að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður og bjóði þorrann velkomin, og inn í bæ, eins og um tignann gest væri að ræða. Samkvæmt þessu ættu því konur að skottast út á tröppur og gera þetta sem fyrst. Helst núna.
Þú átt að segja, hátt og snjallt: Velkominn Þorri! eins og væri verið að taka á móti þjóðhöfðingja. Ég skelli mér í þetta á eftir.
Það er hinsvegar mun áhugaverðara verkefni sem bíður strákanna á heimilinu því í þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur að þeir eigi að fara á fætur fyrstir allra manna um leið og Þorrinn gengur í garð.
„Áttu þeir að fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa.“
Að þessu loknu áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag — Þetta er semsagt að fagna þorra.
Það verður að segjast að þetta er svolítið meira fjör en að gefa eiginmanninum/bóndanum blóm, bjór, hrútspunga og hamborgara. Er þetta ekki hreinlega spurning um að endurvekja þessar gömlu hefðir sem fela í sér umtalsvert meira stuð. KOMA SVO DRENGIR!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.