Hvernig komumst við frá A til B? Og hvað gerist meðan við ferðumst þar á milli?
Þessar tvær spurningar eru að mínu mati rauði þráður bókarinnar NÚTÍMINN ER TRUNTA en höfundurinn, Jennifer Egan, fer inn á þessa skemmtilegu braut að leiða lesendur í ferðalag sögupersóna sem tengjast allar á beinan eða óbeinan hátt.
Þetta eru nokkrar frásagnir sem á endanum verða að einni stórri.
“Sasha er stelsjúk og gengur til sálfræðings. Bennie borðar gull og lætur sig dreyma um sín yngri ár. Þegar hann þráði Alice sem þráði Scotty sem þráði Jocelyn sem stakk af með miðaldra plötuútgefanda. Enginn þráði Rheu sem þráði Bennie. Hvert þeirra fær sinn kafla í þessari bráðskemmtilegur skáldsögu sem kemur víða við. San Francisco, Mew York, Los Angeles, safarí í Afríku og listasöfn og fátækrahverfi í Napólí. En hver sem við erum og hver sem við förum þá er nútíminn óttaleg trunta.”
Á meðan á lestrinum stendur skilur höfundur lesendur eftir með ýmar vangaveltur og spurningar um lífið og tilveruna.
Ein af stóru vangaveltunum er hvernig manneskjur koma fyrir í mismunandi aðstæðum eftir því hver segir sögu þeirra. Aðalpersóna verður aukapersóna í einni frásögn og öfugt. Ég hafði t.d. myndað mér ákveðna skoðun á einni aðalpersónu sem síðan breyttist þegar ég las um hana sem aukapersónu. Álit mitt á þessari einu persónu breyttist fjórum sinnum allt eftir því hvers sögu ég var að lesa.
Bæði innihald bókarinnar og framsetning haldast í hendur. Við færumst fram og til baka bæði í tíma og rúmi. Snúumst í hring eins og platan á bókakápunni. Allt tengist, allt er samtvinnað, hefur áhrif á hvort annað, púsl sem fara saman og mynda eina stóra heildarmynd. Þrátt fyrir snúninginn tekst höfundi að leiða okkur á milli persóna og frásagna án ruglings og því er bókin auðlesin.
Einnig stóð Arnar Matthíasson sig vel við þýðingu bókarinnar en honum tókst afbragðs vel að koma textanum til skila á mannamáli.
Þetta er ekki bara saga vináttu, ástar og fjölskyldubanda heldur einnig saga af því hvernig draumar verða að veruleika og hvernig í sumum tilfellum þeir fölna og deyja eftir því sem við eldumst og tíminn setur mark sitt á tilveru okkar.
Virkilega góð bók sem óhætt er að mæla með.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.