Spænski rithöfundurinn Paulo Coelho er mörgum kunnur fyrir skrif sín sem snerta oft bæði á hinu forboðna og því sem snýr að andlegum málefnum. Það sem snertir hjarta manns og sálu.
„Ellefu mínútur“ skrifaði hann árið 2003 og studdist þá við frásagnir brasilískrar vændiskonu.
Bókin segir sögu Maríu sem er tiltölulega saklaus og heillandi ung stúlka en röð atburða verða til þess að hún leiðist út í vændi. Frá litlu þorpi í Brasilíu leiða örlögin hana til Sviss þar sem hún tekur þá ákvörðun að selja líkama sinn í stað þess að snúa aftur heim, þá aðallega til að halda andlitinu, því fólkið hennar þar telur hana vera að gera það gott sem svissneska dömu.
Með fjölgandi kúnnahóp sér hún nýjar hliðar á heiminum því næst daglega en mitt í þeirri hringiðu reynir María að móta sér skoðanir og læra af lífsreynslu viðskiptavina sinna allt það sem hún telur mikilvægt í lífinu.
Dag einn hittir hún ungan málara, Ralf að nafni sem er bæði vitur og vænn, en jafn rótlaus og hún. Sálufélaga sinn. Ralf þykist sjá í henni birtu, sjá hana sjálfa – en María hafði einmitt, gegnum árin, einsett sér að opna hjarta sitt einungis fyrir dagbókinni sinni. Í Ralf hins vegar finnst henni hún sjá einhvern sem gæti hugsanlega veitt sér einhverja sáluhjálp eða fullnægju. Með samspili Ralfs og Maríu eru lesendur hluti af trylltum heimi þessara ungu elskenda.
Rithöfundurinn opnar ögrandi veröld og leyfir ímyndunarafli lesenda að fylla í eyðurnar. Hvað er sönn ást ef sú tilfinning er til, hvar eru mörk ástríðu og ofbeldis þegar kemur að kynlífi og hversu djarfur er hugur þinn?
Coelho útskýrir hugmyndir sínar um heilaga ást, fær okkur til að efast um allt sem við teljum okkur vita um ástina og lífið og skorar á okkur að kynnast öðru sjónarhorni.
Ellefu mínútur er bók sem allir ættu að lesa – helst tvisvar og í baði.
Smelltu HÉR til að skoða heimasíðu Paulo Coelho, HÉR til að fylgjast með honum á Twitter og HÉR til að skoða Facebook síðu rithöfundarins.
Sigrún er grafískur hönnuður að mennt en hefur eytt sl.tveimur árum í húsfreyjustörf og barneignir. Henni líður best með bækur í kringum sig, þá helst við arineld eða ofaní baðkeri. Ferðalög og munaður af ýmsu tagi eru ofarlega á óskalistanum auk þess sem hún hefur yndi af að gera eitthvað af sér. Sigrún er naut.