Nýlega lauk ég við að lesa bókina ROOM eftir írska rithöfundinn Emmu Donoghue en í henni segir frá drengnum Jack sem dvelur fyrstu fimm æviárin í örfáum fermetrum með móður sinni sem hann kallar bara Ma.
Sagan er sögð í fyrstu persónu drengsins sem hefur aldrei séð neitt annað en þetta eina herbergi, sitt lítið af hverju í sjónvarpinu og svo hana móður sína sem er um 26 ára. Þetta er hans agnarsmái heimur sem samt er svo ótrúlega stór – og veröldin fyrir utan, það er bara geimurinn.
Alveg frá fyrstu síðu varð ég hrifin af bókinni. Það hlýtur að vera spennandi áskorun fyrir rithöfund að setja sig inn í hugarheim fimm ára drengs sem þekkir ekkert nema mömmu sína, Dóru landkönnuð, Kort og Snappa.
Enn betra ef dæmið gengur upp eins og tilfellið varð með þessa metsölubók. Emmu tekst svo óskaplega vel að búa til sterkar persónur og sögu sem framan af er verulega spennandi en mjakar sér svo yfir í heimspekilegar vangaveltur um fyrirbæri eins og þroska, félagslíf, menningu, tækniframfarir og sitthvað fleira.
Sterkust fannst mér þó pælingin um fyrirbærið ‘fangelsi’ eða ‘hugarfjötra’.
Hvernig hver og einn einstaklingur á sér líklegast einhverja persónulega fjötra sem stundum eru ofnir úr afar fíngerðum, en sterkum þráðum.
Þegar listamanni tekst að ýta við áhorfanda, áheyranda eða lesanda með þeim hætti að eitthvað skúbbast til í sálarlífinu hefur stór sigur verið unnin. Mér finnst það hafa gerst með lestrinum á ROOM og ég mæli með henni eindregið við þig og aðra bókaorma.
HÉR geturðu lesið meira um bókina og hér um metsöluhöfundinn Emmu Donoghue.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.