Í bókinni Þegar foreldri fær krabbamein er fjallað á hreinskilinn og nærfærinn hátt um það krefjandi verkefni að ala upp börn og lifa og gefandi fjölskyldulífi þegar foreldri glímir við krabbamein.
Bókinni er ætlað að auðvelda foreldrum og aðstandendum að ræða við börn um erfið veikindi og takast á við það sem þeim fylgir.
Barnabókin Begga og áhyggjubollinn fylgir með fræðslubókinni en það er myndskreytt saga um sjö ára stúlku sem á móður með krabbamein.
Sagan er sögð út frá sjónarhorni barnsins og er ætluð til lestrar með eða fyrir börn í samræmi við aldur þeirra og þroska.
Bækurnar tvær eru skrifaðar af Wendy S. Harpham, lækni og þriggja barna móður, sem glímdi við krabbamein um nokkurra ára skeið.
Bókin er gefin út í samstarfi við Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess.
Félagið var stofnað árið 1999 og verður því 15 ára á þessu ári. Formaður Krafts er Halldóra Víðisdóttir.
Sálfræðingarnir Anna Sigríður Jökulsdóttir og Guðrún Oddsdóttir lásu textann og Guðlaug B. Guðjónsdóttir, hjá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur, veitti einnig ráðgjöf. Styrktaraðili bókarinnar er fyrirtækið Gengur vel ehf.
Karl Emil Gunnarsson þýðir.
Í tilefni af útgáfu bókarinnar efna Kraftur og Forlagið til útgáfuhófs í salarkynnum Krabbameinsfélagsins, Skógarhlíð 8, 1. hæð, þriðjudaginn 27. maí kl. 17.
Anna Sigríður Jökulsdóttir, sálfræðingur Krafts, flytur erindi um efni bókarinnar og mikilvægi þess og foreldri sem hefur reynslu af krabbameini kemur fram. Boðið verður upp á léttar veitingar og allir velkomnir.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.