Ég var fengin til að skrifa grein í Læknanemann, tímarit læknanema. Greinin er útlistun á einkennum lækna eftir því hvaða stjörnumerki þeir tilheyra.
Ég er nú þegar búin að birta vatnsberann, fiskinn, hrútinn, nautið, tvíburann, krabbann, ljónið, meyjuna, vogina og sporðdrekann. Hér kemur bogmaðurinn.
Bogmaðurinn 22. nóvember – 21. desember
Bogmenn þurfa að vera á ferðinni. Læknir í bogmannsmerkinu mun sennilega starfa erlendis mestan part starfsferils síns og í mismunandi löndum því bogmenn eiga erfitt með að vera of lengi á sama stað.
Þá vill bogmaðurinn rannsaka skrítna sjúkdóma, sjúkdóma sem öðrum læknum hefur ekki tekist að lækna og eru vitsmunalega krefjandi.
Bogmaðurinn er læknirinn sem hefur áhrif á sjúkling sinn á þann veg að sjúklingurinn mun aldrei gleyma honum, persónuleiki bogmannsins er stærri en lífið sjálft.
Hann er góður í samskiptum sínum við sjúklinga vegna þess að hann er svo yfirmáta einlægur, sanngjarn í samskiptum sínum við aðra og býr yfir óbilandi bjartsýni. Bogmaðurinn er líka mikill mannvinur og sér alltaf það góða í fólki.
Ef bogmaðurinn vill breyta til þá er hann vís til að fara út í dýralækningar.
Frægir bogmenn: Walt Disney, Britney Spears og Frank Sinatra.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.