Blondinbella eða Isabella Lövengrip, er 22 ára gömul, fædd og uppalin í Stokkhólmi. Eftir hinni klassísku sænsku uppskrift er hún bæði ljóshærð og bláeygð, brosmild og kát.
Fæstum myndi bregða við þessa lýsingu enda má segja með sanni að þarna sé verið að lýsa, næstum því, öllum skandinavískum stúlkum.
Hins vegar er Blondinbella frábrugðin öðrum stúlkum á hennar reki. Það sem hún á ekki sameiginlegt með stöllum sínum er tvennt.
Í fyrsta lagi er hún fullviss um að hún geti gert allt sem henni dettur í hug. Í öðru lagi, þá gerir hún allt sem henni dettur í hug.
Meðal þeirra hugmynda sem hún hefur hrint í verk á sinni stuttu ævi er að skrifa tvær metsölubækur, hanna fatalínur og skartgripi við miklar vinsældir, stofna tímaritið Egoboost og ritstýra því, koma á fót fyrirtækinu Spotlife sem heldur utan um margar af vinsælustu bloggsíðum Svíþjóðar m.a. bloggið hennar blondinbella.se sem fær yfir 400.000 heimsóknir á viku.
Hún á fimm hluta- og fjárfestingafélög, auk þess að vera ákaflega vinsæll fyrirlesari. Þetta er aðeins brot af þeim fjöldamörgum verkefnum sem Blondinbella hefur hrundið af stað, með miklum árangri.
Nú, eftir að hafa kynnt sér afrek þessara ungu kraftmiklu konu, liggja eftir tvær spurningar í huga greinarhöfundar. Af hverju virðist ekkert standa í vegi fyrir Blondinbellu; en svo margt sem stöðvar okkur hinar?
“Hún er fædd með silfurskeið í munninum” væri eðlilegt að hugsa með sér.
Hægan, bíðum aðeins við. Ef allar ungar konur sem hafa sömu hæfileika og persónueinkenni og Isabella Lövengrip (og þær eru margar), þá væri heimurinn fullur af Blondinbellum. Þar komum við að lokapunktinum, hvað það er sem greinir á milli Isabellu Lövengrip og margra kvenna?
Spurningamerkið – Hún setur ekki spurningarmerki við sjálfa sig. Er þetta nógu gott? Er ég nógu góð? Er ég nóg?
Að efast um eigið ágæti er ekki verkfæri sem nýtist vel þegar maður ætlar sér eitthvað stórt. Heimurinn er fullur af fólki sem er alltaf tilbúið að gagnrýna Blondinbellu, greinarhöfund og í raun hvern sem er. Af hverju ætti hún að eyða orku og tíma í að endurskoða og hugsa hvert einstaka skref sem hún tekur? Þó Stuðmenn syngi um það, þá er engin krafa um að vera með allt á hreinu.
Ef þig lesandi kær, dreymir um að gera eitthvað af áðurnefndum hlutum sem Blondinbella hefur gert, skaltu hafa eitt hugfast: Svo lengi sem þú lætur aðra um spurningarmerkin og efasemdirnar eru þér allir vegir færir. Hvort sem að þú ert með munninn fullan af silfurskeiðum eða ekki.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.