Gestablogg ástu kristjánsdóttur um blóm og garða:
Ég renndi austur fyrir fjall í síðustu viku því ég hafði frétt af fallegum tóbakshornum í Gróðrarstöðinni Ártanga í Grímsnesi. Við mamma pökkuðum nesti, áhugasamar um að kanna málið og áttum sannarlega erindi sem erfiði. Dýrindis plöntur héngu um öll loft í gróðrarstöðinni og við héldum sælar til baka með fullt skott af litríkum sumarblómum. Við vorum þó sammála um að það væri eiginlega ekki hægt að fara heim án þess að stoppa í Garðyrkjustöð Ingibjargar í Hveragerði, sem heitir núna Flóra Garðyrkjustöð, það er nánast skyldustopp fyrir áhugamenn um garðrækt.
Skuggaþolið og afar fallegt
Við vorum ekki sviknar af því frekar en fyrri daginn. Sem við gengum inná plöntusvæðið kom sólin út á milli skýjanna og við drógum ískrandi innkaupakerruna á eftir okkur og fylltum hana af dýrindis fjólum, brúskum, burknum og þurftum að beita okkur hörðu að hætta. Þessa tilfinningu þekkja sannir blómálfar. Ég hafði sett mér það markmið að kaupa mér blóm í beð sem stendur í skugga stóran hluta dagsins og þar kom burkninn sterkur inn, en svo fann ég annað fallegt blóm sem ku vera skuggaþolið og er afar fallegt en nafnið hljómaði undarlega; Selur Sólómons.
Fórnarlamb lélegrar þýðingar
Ég er ekkert sérstaklega vel að mér í biblíusögum en ég veit að Salómon var konungur Ísraelsríkis, pabbi Davíðs sem barðist við Golíat, og að hann var þekktur fyrir visku sína en mér var til efs að það væri hægt að halda seli þarna fyrir botni Miðjarðarhafs eða í Dauða hafinu. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að umrædd planta hafði orðið fórnarlamb lélegrar þýðingar því hún heitir í raun Innsigli Salómons sem er vel við hæfi fyrir slíkan mektarmann sem konungurinn var.
Hentar vel í skuggsæla runna
En víkjum þá að plöntunni sjálfri, hún tilheyrir ættkvísl plantna sem falla undir heitið Innsigli eða Polygonatum og eru til um 30 tegundir Innsigla. Þær eru fjölærar skógarplöntur, sem skýrir hvers vegna þær henta svo vel í skuggsæl runna- og trjábeð með burknum og öðrum skuggþolnum plöntum. Salómonsinnsiglið er með 50-90 cm löngum blómstönglum sem eru með hangandi klukkulaga, hvitum blómum. Ég hef lesið að þessi planta þrífist ágætlega hér á landi og ég ætla að láta reyna á það. Hlakka til að fylgjast með uppvexti blómsins sem mun að aldrei heita annað en Selur Salómons í mínum huga.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.