Hæ, ég heiti Victoria og ég er fullkomin, með hjálp photoshop.
Blogg verða oftast vinsæl af því þau eru sönn upplifun og frásagnir af lífi þess sem skrifar. Þau eru mótvægi við markaðsöflin og fjöldaframleiðsluna. Opnar dagbækur á netinu í máli og myndum um líf bloggarans, hugsanir og vangaveltur.
Önnur blogg verða vinsæl af því þau eru í plati, án þess að lesendur átti sig á því.
Sumir bloggarar þykjast nefninlega lifa einhverju draumkenndu Dynasty/Dallas/Kardashian lífi, vaða í peningum, þamba kampavín og borða súkkulaðihúðuð vínber, vöfflur og Nutella í morgunmat án þess að bæta á sig grammi.
Það er bara sagt frá þessu góða og skemmtilega en lífið, eins og það raunverulega er, með áföllum, upp og niðurtúrum, gráum hversdagsleika í bland við glamúrus gleðistundir, þetta líf sem við lifum öll er ekki til hjá þessum öfundsverðu einstaklingum.
Þeirra tilvera er endalaust sólskin með kampavíni, einhyrningum og regnbogum. Þær eiga sæta kærasta, falleg börn, himnesk heimili og þær eru alltaf, alltaf, alltaf mjóar (taraaa… með hjálp photoshop). Þær búa til gerviveröld til að ganga í augu annara. Öðlast viðurkenningu og aðdáun.
En af hverju að plata? Er ekki ágætt að láta bara markaðsöflin um það? Við getum að minnsta kosti gengið að því vísu að þar sé allt í plati því það hefur aldrei verið reynt að halda öðru fram. Það er fyrir löngu búið að svipta hulunni af þeirri blekkingu. Það vita allir að konan sem er að auglýsa fæðubótaefnið, maskarann, meikið er fótósjoppuð.
Oggu, poggu kreisí
Ég sjálf er ágætlega fær í photoshop og hef árum saman unnið við fjölmiðla. Í nokkur ár hef ég fjallað um gerviheiminn sem hægt er að búa til með photoshop hér á Pjattinu og tilgangurinn hefur helst verið að vara fólk við því að líta á myndir í glanstímaritum sem einhverjar fyrirmyndir, raunhæfar fyrir samanburð.
Við getum nefninlega verið oggu poggu kreisí stundum í áhuga okkar á því að vera sætar. Margar hugsa ‘fyrst hún getur þetta þá get ég það’. Bera sig saman við aðrar manneskjur (sem er auðvitað mjög óskynsamlegt, en það er áfengisneysla líka…samt gerir fólk þetta.)
Alveg eins og sumir karlar bera sig saman hver við annann þá gera konur það líka, nema þeir virðast oft hafa meiri áhuga á að monta sig af glansandi jeppum og græjudóti meðan við erum að spá í sléttan kvið og kúl töskur. En hvað ef “þessi sem getur þetta” er svo bara búin að feika árangurinn? Feika hann af því það getur þetta enginn. Já. Hvað þá?
Gunna í næsta húsi fótósjoppar sig
Þegar við horfum á hinar fullkomnu Hollywood dívur í glansritum minnum við okkur reglulega á að þær leggja dag og nótt við að þróa fullkomnar pósur og líta óaðfinnanlega út. Það varla til mynd af þeim sem ekki er búið að eiga gríðarlega mikið við og allar hafa þær ‘vaktara’ á sínum snærum sem reyna að sjá til þess að ‘óheppilegar myndir’ fari ekki á flug.
Mér finnst þó eiginlega fokið í flest skjól þegar “venjulega” fólkið er farið að búa til mitti á sig, lengja sig og stækka brjóstin áður en mynd er skellt á Instagram eða bloggið. Þetta er því miður orðið tilfellið.
Sumar ungar konur láta sér nefninlega ekki nægja að vera í toppformi og gullfallegar, þær vilja breyta útliti sínu þannig að það er ekki lengur raunverulegt. Sjáið t.d. mittið á henni Victoriu blessaðri hér að ofan.
Hún er búin að breyta því. Það er ekki hægt að vera í þessum hlutföllum nema þú sért barbídúkka, og ef barbí væri raunveruleg þá gæti hún ekki andað – (sumar vilja reyndar vera barbídúkkur, en það er önnur saga).
Svo getur maður spurt sig, kannski er ekki við þessar elskur að sakast? Þær missa sig bara, leggja þetta á sig til að uppskera aðdáun og viðurkenningu í heimi sem er komin ofboðslega langt í efnishyggju og útlitsdýrkun.
Kannski er tímabært að hugsa bara: “Helmingurinn er lygi og hitt allt eintóm svik” áður en maður opnar Instagram, Facebook og bloggsíður á morgnanna. Það má nefninlega fyrirfram gera ráð fyrir að þetta sé bara allt í plati. Bara lygi. Ef það lítur út fyrir að vera of gott til að vera satt, þá stendur það eflaust heima.
Svo er spurning hvort það sé ekki réttast að merkja myndir með #nofilter #nophotoshop #nolies áður en þær eru birtar á netinu fyrst platið er orðið standardinn hjá svo mörgum?
Hér má sjá hvernig konur úr skemmtanabransanum í Hollywood breyta vaxtarlagi sínu til að virka meira aðlaðandi í augum fylgjenda sinna á samfélagsmiðlum. Við tökum kannski 20 myndir, veljum þá bestu og þar yfir góðan filter af Instagram. En svo þarf að breyta vextinum líka. Er furða að maður spyrji – Hvenær er þetta komið gott?
Það er eitt að vilja vera sæt, lifa heilsusamlegu lífi, fara vel með sig og dressa sig upp, nota góðar snyrtivörur, kunna að mála sig og koma vel fyrir. Það er líka eðlilegt að vilja koma vel út á myndum, hver vill það ekki!? Við fílum alltaf best myndir af okkur þar sem við erum sem sætastar. Þannig erum við allar.
Það er hinsvegar mikilvægt að hafa eðlileg/heilbrigð viðmið í þessum efnum og láta ekki þessar platfyrirmyndir hafa áhrif á það sem maður gerir. Afleiðingar af slíku geta orðið mjög alvarlegar. Það getur enginn orðið svona… til hvers þá að vera að feika það með fótósjoppi? Við þurfum að gæta þess að sjá í gegnum þetta… og minna okkur á hvað er feik.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=Xqt9NrEIzFY[/youtube]
Ef það hefur einhverntíma verið hreinsandi, róandi og friðandi fyrir sálina að segja við sjálfa sig “fuck this” (afsakið orðbragðið) þá er það núna. Spurning hvort það verði ekki bara morgunmantran í vetur?
Ps. Af sérstökum ástæðum breytti ég aðeins þessari færslu frá þeim texta sem birtist fyrr í dag. Skilaboðin eru þó enn þau sömu. Góðar stundir.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.