Ég er búin að velta því ansi lengi fyrir mér hvort það sé ekki bara komin tími á bloggið aftur og niðurstaðan er já, jú… klárlega.
Samfélagsmiðlar eru fyrir löngu orðnir ansi súrir og þar fyrir utan þá hverfa bara allir statusar í skrollinu og gufa upp á sirka einum degi. Facebook er orðinn alveg stórskrítinn staður og löngu búinn að tapa öllu því sem okkur fannst aðlaðandi við þann miðil í byrjun. Þetta reyndist bara vera einhver risa gagnaöflun og atferlismótun sem hefur skilað sér í stríðandi fylkingum, lélegum sjálfsmyndum ungra kvenna og öðrum leiðindum. Þar fyrir utan erum við flest háð þessu dópamín kikki sem felst í því að skrolla á þessu dótaríi og einbeitingin til að lesa verður æ lélegri, svo ekki sé minnst á þverrandi orðaforða hjá ungu kynslóðinni ásamt óteljandi öðrum neikvæðum þáttum. Er ekki um að gera að koma með eitthvað mótvægi? Þaheldénú…
Útrás fyrir tjáningarþörf
Ég ætla samt ekki að byrja að blogga aftur út af því að Mark Zuck feilaði. Ég ætla að byrja að blogga af því ég hef tjáningarþörf sem mér finnst ekki beint meika sens að fá útrás fyrir í Facebook statusum og það er bara svo og svo mikið sem ég nenni að sýna matinn sem ég borða eða lóðin sem ég lyfti á Instagram.
Mig langar að tjá mig um það sem ég hugsa, segja frá sumu af því sem ég geri og ekki síst, segja frá því hvað aðrir og aðrar eru að gera sem er áhugavert, spennandi og eftirtektarvert. Til dæmis eins og nýja veitingahúsinu Ráðagerði á Gróttu sem er afar kærkomið útivistarfólki, Seltirningum og öðrum sem kunna vel að meta þetta fagra svæði.
Fésbókarstatusar ei meir
Ég hugsa að það muni kannski taka nokkra daga að koma ryðguðu blogg hjólinu í gang að nýju enda nokkur ár síðan ég var ötull bloggari (sirka tuttugu). Það er ekki beint það sama að halda úti persónulegu bloggi og að blogga á kollektív vef eins og Pjattinu en breyttir tímar bjóða upp á nýjar nálganir. Nú verða það fésbókarstatusar nó more og persónulega pjattbloggið tekur við.
Myndin við færsluna er af „skrifborðinu mínu“ á Bókhlöðunni þar sem ég ætti að vera að lesa mannfræði en tek þess í stað stórar ákvarðanir um framtíðar bloggfærslur. Meira um mannfræðina síðar, stórskemmtilegt fag.
Namaste
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.