Listamaðurinn Marco Evaristti bíður nú eftir því að fá skammir, og jafnvel rúmlega það, frá landeigendum við Geysi sem hafa kært Marco fyrir að setja bleikan ávaxtalit í Strokk.
Í viðtali við mbl.is segist Marco ekki hafa talið sig þurfa að biðja um leyfi enda “eigi” enginn náttúruna. Þar segir hann jafnframt að hann geri eitt náttúrulistaverk á ári en þá málar hann beint á náttúruna. Síðast hellti hann ávaxtalit í frosinn foss í Noregi og þarf að sitja í fangelsi í 15 daga fyrir vikið.
Listamaðurinn er þó alveg rólegur, segir litinn ekki skaða Strokkinn enda samskonar ávaxtalitir notaðir í mat. Hann segir líka að Íslendingar ættu að vera stoltir þegar þeir skoða þetta enda hafi enginn séð náttúru okkar svona áður.
„Ég var þarna klukkan korter yfir fjögur í morgun og beið eftir því að sólin kæmi upp. Ég framkvæmdi gjörninginn klukkan 05:25 að morgni og enginn var á staðnum í þá tvo tíma sem þetta tók,“ segir hann í viðtalinu.
Það gefur auga leið að við á Pjattinu erum yfir okkur hrifnar af þessu uppátæki listamannsins enda Strokkur hreinlega íðilfagur svona bleikur og sætur!
Bleikur er kvenlegur og rómantískur litur, jákvæður og yndislegur. Við elskum bleika litinn og fögnum honum. Okkar vegna mætti bleikur Strokkur vera árlegt uppátæki. Til dæmis á Kvennafrídaginn. Væri ekki gaman að hætta snemma í vinnunni og keyra upp að Strokki til að sjá hann gjósa bleiku!
Þvílík dásemd!
Hér með lýsum við Pjattrófur stuðningi okkar við Marco og skorum á lögregluna að miskuna sig yfir þennan dásamlega listamann. Hann skaðar engann með þessu, þvert á móti er þetta bara gleði og hamingja. Áfram bleiki liturinn! Áfram stelpur!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.