Hin 22 ára María Ólafsdóttir tók þátt fyrir Íslands hönd í Eurovision söngvakeppninni í Vín með laginu Unbroken fyrr á árinu og stóð sig með prýði.
María Ólafs, eins og hún kallar sig, hefur haft í nógu að snúast í sönglistinni en nú fyrir skömmu kom út nýtt lag með henni sem nefnist Someday. Áhugamálin tengjast aðallega tónlistinni en hún hefur einnig verið mikið í leiklist og dansi.
Þegar hún er ekki að sinna starfi sínu sem Solla Stirða á skemmtunum eða syngja nýtur hún þess að vera með kærastanum, fjölskyldu og vinum. Framundan er jólatörnin þar sem hún kemur fram með Friðriki Ómari á jólatónleikunum í Hofi fyrstu helgina í desember og kemur fram á Jólabó helgina eftir.
María Ólafs hefur einnig tekið sæti í dómnefnd í Jólastjörnunni og mun því hafa miki áhrif á hvaða unga stjarna stígur á svið í Laugardalshöllinni á Jólagestum Björgvins. Ég fékk Maríu til að svara nokkrum spurningum um fegurðarrútínuna sína.
MAKEUP
Hvaða meik notarðu?
Ég nota Mac Studio meik.
Uppáhalds hyljarinn?
Uppáhalds hyljarinn minn er frá Bodyshop. Hann hentar bara mínum húðlit og passar mjög vel við meikið mitt.
Notarðu gerviaugnahár?
Ég nota stundum gerviaugnhár þegar ég er að koma fram eða í myndatöku og öðru slíku annars finnst mér bara best að vera bara með mín eigin augnhár.
Hefurðufengið sýkingu af því að nota maskara frá öðrum?
Nei ég hef sem betur fer aldrei lent í því. En ég er líka mjög passasöm á að nota ekki maskara frá öðrum nema í neyð.
Uppáhalds maskarinn þinn?
Uppáhalds maskarinn minn er frá Lancome. Burstinn á honum er lítill og skaftið sjálft er bogið þannig auðvelt er að komast að öllum augnhárunum án þess að klessist neitt.
Hvernig málarðu þig fyrir venjulegan dag og hvað ertu lengi að skella þessu á?
Ég set á mig meik, maskara, sólarpúður og kinnalit. Stundum bæti ég við smá eyeliner eða varalit fer algjörlega eftir bara hverjum degi fyrir sig. Það er mjög mismunandi hvað ég er lengi að þessu en ég tek oftast svona korter í förðun fyrir venjulegan dag, en ég er líka mjög góð í að vera lengi að dunda mér við svona hluti svo það er kannski ekki alveg að marka.
Ertu íhaldssöm þegar kemur að förðun eða alltaf til í að prófa eitthvað nýtt?
Ég er frekar íhaldssöm þegar kemur að förðun, en er samt alveg opin líka fyrir að prófa eitthvað nýtt þegar einhver annar málar mig.
Ferðu ómáluð út úr húsi?
Já stundum nenni ég engan veginn að setja eitthvað framan í mig, það er líka bara fínt að leyfa húðinni að anda stundum.
HEILSA
Hvað gerirðu til að hugsa um heilsuna?
Aðalatriðið hjá mér er að hreyfa sig. Það er besta meðalið fyrir andlega og líkamlega heilsu. En svo reynir maður líka að borða hollt þó svo að það takist ekki alltaf.
Stundaðirðu hópíþróttir sem barn?
Nei ég var svolítið í frjálsum íþróttum sem barn en svo var það aðallega dansinn.
Hvað finnst þér auðveldast að gera til að passa heilsuna?
Auðveldast er hreyfingin.
Hvað finnst þér erfiðast að gera til að hugsa um heilsuna?
Það sem mér finnst erfiðast er að hætta að drekka mikið kók.
TÍSKA
Áttu þér einhverja fyrirmynd þegar kemur að tískunni?
Ég á mér ekki beint neina sérstaka fyrirmynd þegar kemur að tísku. Ég versla bara það sem mér finnst flott hverju sinni. En maður sækir stundum innblástur til stjarnananna í tónlistarheiminum þegar kemur að því.
Hælar eða flatbotna?
Ég er langoftast í flatbotna skóm en maður hoppar í hæla annað slagið og skvísar sig upp.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=BDFrcVEmGc8[/youtube]
Hvernig er hreinsi rútínan þín?
Ég byrja á því að taka allan augnfarða af með augnfarðahreinsi frá Guinot. Þar á eftir nota á andlitsmjólkina frá þeim og þríf húðina vel með henni. Að lokum nota ég andlitsvatn einnig frá þeim til að loka húðinni aftur og enda svo á að setja á mig gott rakakrem.
Hefurðu fengið bólur og ef svo, hvernig dílarðu við þær?
Já, ég reyni að sleppa að kreista þær og set frekar strax bakteríudrepandi maska sem drepur bólurnar. Stundum er samt þörf á að kreista óhreinindin út fyrst og set ég þá bakteríudrepandi maska eftir kreistun.
Hvernig húðgerð ertu með?
Ég er með frekar þurra húð.
Hvaða rakakrem notarðu?
Ég nota rakakrem frá Guinot, sem gefur mjög góðan raka.
Notarðu augnkrem?
Einstaka sinnum nota ég augnkrem ef ég er þurr á augnlokunum.
og að lokum… þrjú lífsgildi sem þú reynir að lifa eftir?
Það er klárlega heiðarleiki, hamingja og réttlæti.
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!