The Internship er skemmtileg gamanmynd sem verið er að sýna í Laugarásbíó en Owen Wilson og Vince Vaughn fara með aðalhlutverkin.
Þessir leikarar bera á sér vissan gæðastimpil í gamanleik. Það er ennfremur Vince Vaughn sem skrifar handritið að myndinni. Fólk á sem sagt nokkurnveginn að vita að hverju það gengur, ef það á annað borð “fílar” þessa leikara, þá er þetta skothelt!
Myndin, sem er leyfð 7 ára og eldri, er um tvo miðaldra vini og sölufélaga sem eru að ná vissum botni á ferli sínum. Þeir þurfa að grípa til örþrifaráða til þess að ná sér upp af botninum. Í kjölfarið sækja þeir um starf hjá Google, komast að sem lærlingar og ævintýrið hefst.
“Mætti banna innan 12 ára”.
Myndin er fyndin og skemmtileg en á tveimur stöðum varð hún langdregin. Það þykir mér galli á gamanmyndum. Önnur þessarar of löngu sena var ekki heldur alveg fyrir 7 ára börn. Í senunni sem ég tala um er gefið í skyn að það sé eðlilegt að “lenda á fylleríi” á strippbúllu – og að eitt gott fyllerí geti einnfremur leyst mörg vandamál.
Þetta var ekki alveg rétti boðskapurinn í ljósi þess að myndin er leyfð börnum. Ég var með barni sem hélt fyrir augun vegna þess að það var svo “ógeðslegt” að horfa á senuna. Reyndar komu fyrir fleiri svona augnablik, sem voru reyndar mörg hver bráðfyndin en það mætti banna myndina innan 12 ára.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=a8DjuGlVknQ[/youtube]
Ég er ein þeirra sem finnst þeir Vince og Owen vera fyndnir “dúddar” og skemmti mér mjög vel. Myndin er fyndin og söguþráðurinn er skemmtilegur. Það var góð skemmtun að fara á The Internship og mikið hlegið, fyrir utan nokkur vandræðaleg augnablik, fóru sú stutta og stóra bara nokkuð glaðar í bragði heim á leið.
Góða skemmtun!
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.