Eftir að hafa heyrt endalaust góða hluti um nýju kvikmyndina ‘Svartur á leik’ þá skellti ég mér í Laugarásbíó til að sjá hana sjálf…
…Myndin er byggð á bók eftir Stefán Mána en sagan fjallar um ungan (og frekar tæpan) strák sem sogast inn í heim eiturlyfja og glæpa. Þannig breytist líf hans á mjög skömmum tíma og þá er erfitt að snúa til baka. Þessi mynd gefur stax góða sýn á einstaklinga sem eru gegnumsósaðir af eiturlyfjum og tibúnir til að gera allt fyrir peninga.
Það sem ég fílaði best við myndina var sú staðreynd að hún er byggð á sönnum atburðum. Til dæmis eru raunverulegir glæpir sem hafa átt sér stað á Íslandi fléttaðir inn í söguna á mjög flottan hátt.
Stundum þegar ég hef verið að horfa á íslenskar kvikmyndir eða þætti sem fjalla um undirheima Íslands þá fæ ég smá kjánahroll, það gerðist hins vegar ekki í þetta skipti. Ég held að það sé bara vegna þess að myndin sýnir þennan heim á frekar raunverulegan hátt… og það er ekkert verið að skafa af viðbjóðnum sem fylgir.
Svartur á leik er sorgleg, fyndin, spennandi og vel leikin og ég mæli eindregið með að kíkja á hana. Ég myndi segja að myndin væri kannski ekki sú allra besta eins og sumir vilja meina en þó óvenjulega góð íslensk bíómynd.
__________________________________________
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=lTPNWiu7coU[/youtube]
Guðný Hrönn Antonsdóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2011 með B.A í Myndlist. Árið 2012 kláraði hún svo Tísku- og auglýsingaljósmyndun í Fashion Academy Reykjavík. Hún er fædd í október 1988 og hefur ótæmandi áhuga á tísku, förðun, myndlist og shitzu hundum.