Þann 14. apríl árið 2010 opnaðist jörðin í annað sinn á innan við mánuði í Eyjafjallajökli. Gosið vakti heimsathygli meðan það stóð en þegar flug fór aftur í fyrra horf hvarf áhugi heimsins og eftir sátu bændur sem lifa og starfa undir gosstöðvunum.
Þessi einstaka mynd fjallar um gosið og fólkið sem býr í kringum þennan risastóra eldgýg.
“HOT – SPOT”
Ísland er eitt stórt “Hot-spot” má segja.
Við erum með flestu virku eldfjöllin á jörðinni og erum eiginlega bara orðin vön svona eldgosabrölti og ekkert að kippa okkur of mikið upp við svoleiðis vesen. Hekla var á miðöldum kölluð hlið helvítis.
Margir útlendingar skilja ekkert í því hvernig við þorum að búa hérna og þá sérstaklega eftir að hafa fundið fyrir gosinu á eigin skinni þegar Eyjafjallajökull lét til sín taka með slíkum látum að sjálfur Brad Pitt komst ekki einu sinni leiðar sinnar.
Hugrekki og þrautsegja tekur yfir
Mér fannst þessi mynd stórkostleg, hún er mjög fræðandi og áhugaverð og ótrúlegt að sjá hversu sterkar og hugrakkar þessar þrjár fjölskyldur sem fram koma í myndinni voru á meðan allt þetta gekk yfir. Þau létu ekki deigan síga þrátt fyrir óútreiknanleg og nánast óskiljanleg náttúruöfl sem ruddust inn í líf þeirra og snéru öllu á hvolf.
Fólkið sem kemur fyrir í þessari mynd á heldur betur hrós skilið fyrir þrautsegju og gott jafnaðargeð í garð móður náttúru.
Margir hefðu sagt hingað og ekki lengra, stend ekki í þessu og hætti búskap. En nei, það er reynt með öllu að líta fram á við og sjá lausnir í myrkrinu og öskunni. Einn bændanna stofnaði meira að segja ferðaþjónustu og býður ferðamönnum uppá sýningar á myndum og fræðslu um gosið. Selur þeim svo fínerís varning eins og derhúfur, boli, sælgæti, korn af jörðinni sinni og fleira. Þangað flykkjast ferðamenn í rútum til að fræðast um ótrúlega landið okkar.
Að skyggnast inn í líf bóndans
Myndin sýnir ekki bara eldgos og ösku útum allt, heldur fáum við einnig að sjá sauðburð, bændur að smala og kú fæða kálf.
Eitt af býlunum þurfti að flytja allt sitt sauðfé annað á beit yfir sumarið og fram á haust vegna öskunnar. Það olli því að kindurnar voru ekki kunnugar högunum og komu til baka of léttar og lömbin sem áttu að fara í sláturhúsið voru undir meðalvigt. Í myndinni eru mjög góð og ítrarleg viðtöl við bændur og fjölskyldur þeirra. Það er einnig sýnt mikið af myndefni sem kom fram í erlendum fjölmiðlum.
Úlfur Eldjárn sá um tónsmíði
Það er enginn annar en Úlfur Eljárn sem sér um tónsmíðina fyrir þessa frábæru mynd. Skálmöld eiga einnig lög í myndinni en Úlfur Eldjárn hefur samið tónlist fyrir þáttaraðir á borð við Mið-Ísland, Hlemmavideo og Journey’s End.
Hann samdi stef fyrir IKEA auglýsingu í Póllandi. Hann hefur einnig gefið út sína eigin plötu Field Recordings: Music from the Ether.
Heimildarmyndin Aska var í sýningu á RIFF og verður sýnd á næstunni í Bíóparadís. Sýningar á myndinni hefjast 11. október, sama dag og Málmhaus.
Hér má sjá brot úr myndinni “ASKA”
[vimeo]http://vimeo.com/53989182[/vimeo]
Anna Brá Bjarnadóttir er fædd á því herrans ári 1986, sama ár og Gleðibankinn hóf raust sína í júró, sem er mögnuð tilviljun þar sem stúlkan er sjálf vel stæður Gleðibanki! Anna starfar sem skemmtanastjóri og dj á Loftinu og Lebowski Bar en er á sama tíma algjör græju gúrú og fíkill. Anna er útskrifuð af tæknibraut Kvikmyndaskóla Íslands og hefur m.a. starfað við fjölda auglýsinga og sjónvarpsþátta. Hún býr við Norðurmýrina með hundinum Tinna og kærastanum og kokkinum Jónasi.