Ég ákvað um daginn að kíkja í Bíó Pardís með vinkonu minni. Mér finnst alltaf svo gaman að koma þangað að við vorum eigilega ekki búnar að ákveða á hvaða mynd við ætluðum að fara, við vildum bara fara í Bíó Paradís, enda hef ég ennþá ekki séð mynd þar sem veldur mér vonbrigðum.
Eftir þónokkra umhugsun ákváðum við að fara á A Seperation.
A Seperation er írönsk mynd sem varð gerð árið 2011, hún er fyrsta íranska myndin til þess að vinna Óskarsverðlaun en hún vann í flokkinum yfir bestu erlendu myndina og var einnig tilnefnd fyrir besta frumsamda handritið. Hún er með 8.6 á imdb sem er mjög há einkun fyrir kvikmynd á þeim vef.
Myndin er smá lengi að byrja en samt eru alltaf einhverjir litlir hlutir að gerast sem halda manni við efnið. Hún veltir upp heilum hellingi af siðferðislegum spurningum og lætur mann hugsa um hvað maður hefði sjálfur gert í svipaðri aðstöðu og persónur myndarinnar lenda í.
Hún kom mér á óvart að því leyti að það voru allt aðrir hlutir sem snertu mig við hana heldur en eiginlegt umfjöllunarefni hennar, það eru í rauninni lítilvæg “smáþættir” sem sitja eftir og ég hugsa um núna eftir að hafa horft á myndina en ekki heildar”plottið”. Að vissu leyti fannst mér eins og ég væri lent inn í stofu hjá fólkinu sem myndin fjallar um en menningarlega fannst mér að ég væri svo langt í burtu.
Ég myndi ekki mæla með A Seperation einfaldlega sem dægrastyttingu eða sem afþreyingu, heldur er hún fyrir þá sem vilja sjá eitthvað sem hreyfir við þeim. Hún gerir það.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=58Onuy5USTc[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.