Sem mikið kvikmyndanörd þá skammast ég mín hálfpartinn fyrir að segja að ég hafði aldrei séð myndina “The Wizard of Oz” fyrr en ég ákvað að skella mér í bíó á “Oz The Great and Powerful”.
Um daginn ákvað ég svo að slá tvær flugur í einu höggi og horfði á “The Wizard of Oz” og fór svo seinna sama dag í bíó.
Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með hvoruga myndina. The Wizard of Oz er svo sannarlega barn síns tíma en myndin er algjört meistaraverk (eins og margir vita líklega) miðað við það að hafa verið gerð árið 1939.
Oz the Great and Powerful nær líklega ekki að vera eins tímamótaverk eins og sú fyrrnefnda en nær samt sem áður alveg að halda í við fyrri myndina. Myndin er sjónræn veisla sérstaklega í byrjun og ég verð að segja að ég hef sjaldan séð jafn mikla og flotta þrívídd eins og er í byrjunaratriðum myndarinnar. Sagan er líka skemmtileg og þá sérstaklega vegna fljúgandi apans sem nær alltaf að setja annaðhvort kómískan eða krúttlegan svip á atriðin sem hann birtist í.
Í aðalhlutverkum eru Michelle Williams sem leikur góðu nornina Glindu sem endar á því að vera hetja myndarinnar, James Franco sem leikur Oz, Zach Braff sem talar fyrir apann Finley og Rachel Weisz og Mila Kunis sem leika systurnar Thedoru og Evanoru.
Myndin er fyrirtaks skemmtun fyrir fjölskylduna en hún er bönnuð innan 12 ára enda eru nokkur atriði í henni sem fengu hjartað í mér til að stökkva!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=_1NGnVLDPog[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.