Helgina 1-2 mars var í fyrsta skipti haldin Örmyndahátíð í Bíó Paradís. Hátíðin er ætluð öllum sem hafa áhuga á kvikmyndalist, reyndum sem óreyndum, ungum sem öldnum.
Um var að ræða uppskeruhátíð Örvarpsins, sem er örmyndahátíð Ríkissjónvarpsins. Síðasta haust var frumsýnd ný örmynd vikulega á ruv.is. Myndirnar voru 62 talsins en örmynd er skilgreind sem örstutt kvikmynd sem má alls ekki vera lengri en 5 mínútur. Örvarpið er því góður vettvangur fyrir skapandi fólk sem hefur áhuga á að gera tilraunir með kvikmyndaformið.
23 myndir voru valdar til sýningar á hátíðina í Bíó Paradís og kepptu um verðlaunin “Örvarpann”. Stjórnendur Örvarpsins voru þær Halldóra Rut Baldursdóttir og Harpa Fönn Sigurjónsdóttir. Nánari upplýsingar um aðstandendur keppninnar má finna hér: KLAPPTRÉ
Hátíðin fór vel fram og margar fallegar, skemmtilegar, skrýtnar og áhugaverðar myndir voru sýndar. Allt frá stuttmyndum til vídjólistar eða tölvuteiknimynda. Myndirnar voru sýndar hver á eftir annari án hlés og síðan var áhorfendakosning. Greinilegt var að einhverjir hefðu þegið hlé því nokkuð var um ráp um miðbik sýningarinnar. Kannski var það vegna þeirra góðu veiga sem voru í boði.
Örvarpinn var veittur fyrir Örmynd ársins 2013 og var það KJÖT eftir Heimi Gest Valdimarsson sem hreppti verðlaunin. Hann hlaut Canon EOS 100D í verðlaun. Áhorfendaverðlaunin féllu í skaut Einars Baldvins Arasonar fyrir örmyndina ECHOS – Who Knew. Hann hlaut Canon LEGRIA mini X. Einnig var bætt við einum flokki á hátíðinni en myndin Breathe eftir Erlend Sveinsson hlaut viðurkenningu sem sérstakt val dómnefndar.
Örvarpið er virkilega skemmtilegt og frábært framtak. Það er vonandi að hátíðin sé komin til þess að vera!
Verðlaunamyndirnar má svo sjá hér á vef RÚV: KJÖT & ECHOS – Who Knew
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.