Only God Forgives er önnur stórmynd leikstjórans og handritshöfundarins Nicolas Winding Refn.
Áður leikstýrði hann myndinni Drive sem hlaut góðar undirtektir bæði gagnrýnenda sem og áhorfenda. Líkt og í Drive er Ryan Gosling í aðalhlutverki en karakterinn sem hann leikur er fremur þögull; Gosling segir ekki nema fimmtán setningar alla myndina.
Only God forgives fjallar um Julian (Ryan Gosling) sem er búsettur í Bangkok þar sem hann rekur bardagaklúbb ásamt bróður sínum Billy (Tom Burke).
Það liggur í augum uppi að Billy er frekar ógeðfelldur maður en þegar hann er myrtur kemur móðir þeirra bræðra, Crystal (Kristin Scott Thomas), til Bangkok til þess að ná í líkið af Billy og til að hefna fyrir dauða sonar síns. Frá fyrsta augnablikinu sem Crystal birtist í myndinni er augljóst að hún er litlu skárri en uppáhalds sonur hennar Billy.
Restin af myndinni snýst svo um ofbeldisfulla leit hennar af þeim sem eiga hlutdeild í morðinu á Billy. Höfuðpaurinn í því máli er virtur lögreglumaður að nafninu Chang (Vithaya Pansringarm) sem á hvorki meira né minna en þrjú söngatriði í myndinni (það er bara einu færra en John Travolta átti í söngvamyndinni Grease). Myndin endar svo með smá,,twist” en það er alls ekki nógu stórt til þess að hægt sé að réttlæta hve hægt hinar 80 mínúturnar af myndinni líða.
Only God forgives er fallega tekin og hvert einasta skot í myndinni er vandlega útpælt. Sagan sjálf er einnig áhugaverð en afar langdregin og heldur manni ekki nógu vel við efnið (eiginlega hundleiðinleg).
Ég myndi vilja segjast vera svo djúp að mér finnist Only God Forgives vera frábær mynd en í sannleikanum sagt veit ég eiginlega ekkert hvað ég var að horfa á í gærkvöldi.
Ég get því miður ekki mælt með Only God Forgives nema við þá sem njóta þess að horfa á “artý” myndir. Ég entist þó alla myndina, annað en margir aðrir bíógestir þetta kvöld.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=FAgirTtfobk[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.